Færsluflokkur: Menntun og skóli

Hvatning og fyrirmyndir

Datt inn í ansi magnaðan sjónvarpsþátt í fyrrakvöld held ég, á sjóngufunni, um uppeldismál. Þetta var skoskur þáttur þar sem verið var að fjalla um áhrif mismunandi uppeldisaðstæðna á persónuleika barna, fylgst var með nokkrum fjölskyldum og lögð próf fyrir börnin sem og verkefni sem foreldrar áttu að leysa úr.

Það kom svo sem ekkert nýtt fram í þessum þætti, en myndin var dregin mjög skýrt fram í dagsljósið, hversu mikill lykilþáttur utanumhald foreldra er í uppeldi barna þeirra, að þeir hvetji börnin sín til dáða og séu einnig góðar og traustar fyrirmyndir. Aldrei of lítið af slíku borið á borð á þessum tímum þar sem tilhneigingin er því miður allt of mikil að firra sig ábyrgð og skella skuldinni á stofnanir samfélagsins.

Sem dæmi um hve hvatningin getur fleytt manni áfram, þá var ég 11-12 ára þegar móðir mín fékk mér gítar í hendur og námsefni sem ég gat lært eftir heima. Ég greip þetta á lofti og sé ekki eftir því í dag, enda tónlist og hljóðfæraleikur órofa þáttur í lífi og starfi hjá mér. Þarna fékk ég hvatningu og hvað  fyrirmynd varðar þá hafði hún mamma líka oft spilað og sungið fyrir okkur Sollu þegar við vorum lítil.

Góð hvatning og fyrirmynd. Ég gæti ekki gert mér í hugarlund hvert ég hefði stefnt ef ég hefði ekki orðið þessarar gæfu aðnjótandi. Takk mamma!:) 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband