Hvað með uppeldið?

(Greinarkorn þetta birtist í Morgunblaðinu 13. ágúst 2010 og var efni viðtals við mig í þættinum "Vítt og breitt" á Rás 1 að morgni 13. október).

Nú í haust verða tvö ár liðin frá hruni íslenska hagkerfisins. Allt frá fyrsta degi hafa háværar umræður átt sér stað um hvað olli því að þessi fámenna en vel efnaða þjóð, sem býr í landi mikilla auðlinda, steyptist á örskammri stundu niður í efnahagslegt svarthol og rankaði við sér í hópi fátækustu ríkja heims.

Um viðbrögðin, góð og slæm, er óþarft að fjölyrða um hér þar sem fátt annað hefur komist að í þjóðfélagsumræðunni en skýrsla rannsóknarnefndar, þær rannsóknir sem embætti sérstaks saksóknara er með í gangi og alla þær umræður og skoðanir sem ómað hafa um það hver beri ábyrgðina. Það hriktir í Alþingi og ríkisstjórn, við að finna leiðir til að koma þjóðarskútunni aftur á flot, á meðan stjórnmálin eyða mestu púðri í að lappa upp á brotna ímynd sína með þeim meðulum sem í boði eru þar á bæ. Og ástæður hrunsins hafa verið dregnar fram og flestir sammála um að slakað hafi verið um of á klónni og eftirlitsaðilar sofnað á verðinum. Hins vegar hafa menn lítið gert að því að horfa í eigin barm og flestir firra sig ábyrgð.

Öll þessi hringiða miðast við einn útgangspunkt, það sem tapaðist og sem flesta landsmenn skortir til að ná endum saman; hin viðurkenndu  verðmæti nútímasamfélags - peninga.  En hvað með hin raunverulegu verðmæti: Fólkið sjálft – mannauðinn? Nú þegar hafa stór skörð verið höggvin í velferðarkerfið í tilraunum stjórnvalda til að lágmarka hinn stóra skaða og vitað mál að þetta er aðeins byrjunin. Fólk er í unnvörpum  farið að taka sig upp og flýja land, og fyrirséð að sá straumur á eftir að aukast.  Þannig heldur tapið áfram og gerir okkur enn erfiðara að reisa landið við aftur þar sem sterkasta vopnið okkar, menntakerfið, verður æ bitlausara við þessar aðstæður, bæði þegar litið er til stöðu þess gagnvart niðurskurðarhnífnum og þá köldu staðreynd að stór hluti þeirra sem flytja erlendis er vel menntað fólk.

Þessi staða vekur hjá mér spurningar sem ég spurði mig fljótlega eftir hrun: Hvar er umræðan um uppeldi og menntun barnanna okkar? Hvernig getum við skýrt hrunið í ljósi menntastefnu þjóðarinnar og áherslum hennar í uppeldi barna sinna síðustu áratugina? Þarf ekki menntakerfið okkar endurskoðunar við alveg eins og fjármálakerfið? Hvernig nýtist menntakerfið okkur best við að vinna okkur út úr kreppunni? Þar sem ég er grunnskólakennari að mennt og fyrrverandi starfsmaður í uppeldisgeiranum, er mér þetta mál afar kært og hef ég verið að leggja eyrun eftir umræðu í fjölmiðlum um þetta þarfa málefni. Þar hef ég uppskorið minna en ég vonaðist til og hef m.a.s. orðið vitni af þvi að innlegg í þessa veru hafi verið kæft í fæðingu í umræðuþætti í Ríkisútvarpinu. Annað sem ég hef rekist á var lesendabréf frá eldri konu í dagblaði og einhverjar færslur á bloggsíðum. En hvergi hef ég rekist á gagnrýna og ítarlega umfjöllun um þetta efni, þrátt fyrir að sjálfur Háskóli Íslands hafi verið farinn að snúast fast á sveifinni með útrásarmaskínunni.

Ég vil ekki trúa því að uppeldisfrömuðir okkar, kennarar og aðrir sem að þessum málum koma, hafi ekki rætt sín á milli um þessi mál, annað væri fásinna og sjálfhverfa að versta tagi, enda hefur þetta án efa borið á góma yfir mörgum kaffibollanum í stund milli stríða. Það hefði því mátt ætla að Þjóðfundur um  menntamál, sem haldinn var í febrúar síðastliðnum, fjallaði um þennan vinkil og ályktaði þar um, en svo var því miður ekki. Getur verið að uppeldisgeirinn sé orðinn svo niðurbældur og múlbundinn að hann veigri sér við að horfast í augu við þátt uppeldisstefnu þjóðarinnar í hruninu? Ef svo er þarf skepnan heldur betur að rífa sig lausa og fara að íhuga sína stöðu og hlutverk í því uppbyggingarstarfi sem framundan er.

Í ljósi þessa tel ég brýna nauðsyn að skerpa þurfi á allri umræðu um uppeldismál, að þjóðin líti í eigin barm á óvæginn og gagnrýninn hátt og skoði á hvaða leið við séum í uppeldi barna okkar. Sú umræða á fyrst og fremst að beinast að heimilunum og þjóðfélaginu sjálfu en vera leidd af fagfólki úr uppeldisgeiranum. Þjóðfundur um uppeldismál væri þarna góður vettvangur og jafnvel að sett yrði á laggirnar nefnd skipuð af Menntamálaráðuneytinu í ætt við hina tíðræddu Rannsóknarnefnd Alþingis. Þessi „Rannsóknarnefnd Uppeldismála“ myndi á faglegan hátt vinna nákvæma úttekt á uppeldi á Íslandi síðustu áratugi, ekki til að leita að sökudólgum, heldur til að skýra hrunið út frá íslensku uppeldi í síbreytilegu samfélagi og koma með tillögur að leiðum til úrbóta á því sviði, með viðreisn og uppbyggingu Íslands að leiðarljósi. Fái þessar hugmyndir ekki hljómgrunn ráðamanna kalla ég eftir orðum og aðgerðum úr hópi þess mæta fólks sem helgað hefur uppeldismálum sína starfskrafta, og þeirra foreldra sem vilja láta til sín taka á þessum vettvangi.

Sólmundur Friðriksson


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband