Mikið um að hugsa - lítið að skrifa!

Jæja, loksins sest Sólinn niður við skriftir, þó ekki eigi að vera langur pistill í þetta sinnið. Lítið verið í stuði til að skrifa upp á síðkastið. Dreif mig á hjólið í morgun kl. 6 og hjólaði ,,Sólahringinn", sem er 14 km hringur kringum hluta Reykjanesbæjar. Var mættur snemma í vinnuna og góður tími í að spá í eigið blogg og annarra.

Eftir að hafa fylgt henni Lóu minni síðasta spölinn í vikunni sem leið hefur hugurinn mikið snúist í kringum lífið og tilgang þess. Ekki það að ég finni til tilgangsleysis heldur um viðhorf manns til lífsins og þeirra hluta sem taldir eru sjálfsagðir í nútíma samfélagi, þ.e. góð ævi, góð líkamleg heilsa, góð geðheilsa, góð fjölskylda, góð og heilbrigð börn, góðir vinir, góð afkoma, góð vinna, góð eftirlaun, góður sumarbústaður, góður húsbíll, gott hjólhýsi, gott fellihýsi, góð tjaldkerra, góður bíll, gott hús, góð lýsing, góð upphitun, góð baðaðstaða, gott eldhús, gott sjónvarp, góð tölva, góð nettenging, góður sími, góður farsími, góður matur, gott vín, góð tónlist, góðir vegir, góð birta, góður hiti, góðir nágrannar, gott útigrill, góður heitur pottur, góður gashitari, gott félagslíf... og svo mætti eflaust lengi telja.

Málið er bara að vinsa úr öllu því góða sem nútíma samfélag hefur upp á að bjóða og velja úr það skiptir mestu máli. Að líta á allt þetta sem sjálfsagðan hlut ber vott um hroka og græðgi - eitthvað það lúmskasta sem læðist að okkur á síðustu og bestu tímum. Verum þakklát með það sem við höfum. Njótum þess að hafa það gott í samfélagi allsnægta en munum í leiðinni að setja það í forgang sem skiptir máli..... og ég þarf ekki að predika hvað það er .... eða er það?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband