Færsluflokkur: Bloggar

Hrikalegur draumur - sterkt tákn!

Lítið hefur farið fyrir færslum á Sólstafina það sem af er árinu enda í nóg önnur horn að líta hjá manni, sem ég ætla ekki að vera að útlista hér.

Ástæða þess að risinn er vaknaður af blundi sínum er draumur sem mig dreymdi nú í morgunsárið og ég þarf að ryðja frá mér:

Ég var staddur hjá fólki í Reykjavík, sem ég þekkti vel í draumnum en kann ekki skil á í raunheimum. Mér fannst ég sitja úti í garðhýsi á spjalli við hjónin og konan var að sýna mér nýjung í föndri hjá sér, sem var flétta úr nokkrum gulum blómum, sem ég veit ekki hvaða tegund var, gæti haf verið nokkurs konar fíflar - en þó með mun stærri krónu. Umræðan snýst eitthvað um blóm og grín í kringum setninguna ,,En ég er með ofnæmi fyrir blómum" (sem mig minnir að hafi verið í grínþætti í gamla daga).

Þar sem ég sit þarna með útsýni yfir borgina, verð ég var við að eitthvað gengur á á hæðinni ekki svo langt frá mér, sem er þá Skólavörðuholtið (en náttúrulega hálfgerð spegilmynd, eða óraunverulegt, eins og oft í draumum). Sé ég allt í einu mér til hrellingar að turninn á Hallgrímskrikju er farinn að hallast og hann eykst stöðugt, uns kirkjan fellur með látum á hliðina. Ég bíð eftir höggbylgjunni eftir fall þessa mikla risa en ekkert slíkt kemur. Heyri eins og í lýsingu á fréttastöð að einhver mistök hafi orðið hjá vinniflokki í kringum kirkjuna, sem hafi valdið þessum harmleik. Ég hugsa í lostinu: ,,Þetta er að gerast í alvöru og verður ekki aftur tekið". Þá drynur allt í einu við sprenging í miðju kirkjuhúsinu, fyrst ein stór og svo ein eða tvær litlar í kjölfarið, svo svartir sandstrókar gjósa upp úr hlið hinnar föllnu byggingar og hún laskast mikið (var í heilu lagi eftir fallið),en turninn liggur ennþá nokkuð heillegur.

Þarna vaknaði ég í þvílíku sjokki og sorg yfir þessu mikla reiðarslagi, og er svona að ná áttum þegar þetta er skrifað.

Einn sá magnaðasti draumur sem mig hefur dreymt lengi.


Minning

cross

Hún Lóa er dáin eftir áralanga hetjulega baráttu við krabbamein. Guð blessi minningu þessarar hugdjörfu og hæfileikaríku stúlku, sem sýndi okkur svo ótrúlegt sálarþrek og bjartsýni fram til síðasta dags og sem við sem höfum heimsótt hana á blómarósarsíðuna hennar, fengum að eiga hlutdeild í. Það var mikil mildi að hún fékk að líta heimaslóðirnar sínar áður en hún kvaddi en hún var nýkominn til Reykjavíkur eftir helgarferð vestur í Dýrafjörðinn með fjölskyldu sinni.

Allar mínar bænir fel ég henni og Höllu, Sæma og Salvöru. Guð blessi ykkur öll og veiti ykkur styrk. 


Blogg - til hvers?

Ég hef lítið haft mig í frammi við að færa inn í bloggið, enda svo sem ekki ætlunin að kæfa allt í orðaflóði (eins og ég get átt ansi auðvelt með). En þessi síða er nú eiginlega könnun á þessu fyrirbæri og hvort þetta er eitthvað fyrir mig. Mér finnst einhvern veginn ég hafa mjög sjaldan þörf til að skrifa hér inn og hef verið að velta fyrir mér hverju það sætir. Líklegasta skýringin er sú að ég finni mig ekki almennilega í þessu umhverfi og ætla ég að leyfa henni að vera ofaná í þetta skiptið.

Í þessu samhengi knýja nokkrar spurningar á: 

Hvað er þetta blogg eiginlega? Til hvers er maður að blogga? Hvað er það sem fær fólk til þess? Hvenær er fólk að blogga, í vinnunni eða heima? Er bloggið gott eða slæmt? Hvernig kemur það til með að þróast?

 Ég ætla ekki að leitast við að svara þessu, en kannski koma einhver svör frá þeim sem villast hérna inn og skilja eftir athugasemd. Ég held að ef ég á að halda áfram í þessu af heilindum þurfi það að vera í kringum eitthvað annað en svona raus um fréttir og málefni líðandi stundar. Ég sé einhvern veginn ekki tilganginn í því og hreinlega nenni því varla. 

Mér finnst þetta fyrirbæri vera á stundum hálf tilgangslítið, nenni t.d. ekki að lesa um hvernig einhver burstaði tennurnar og hvað hann fékk sér í morgunmat o.s.frv. Margir sem fara hamförum í blogginu (og á ég þá ekki við þá sem eru með hversdaginn sem punkt í mynda- og tenglasíðum) eru að mínum dómi að svala athyglisþörf sinni og er það vel - en ég held að ég hafi ekki nógu mikið af henni til að fara inn á slíkar brautir (eins og ætlunin var með ,,rausinu"). Svo er lík svo margt í boði að það er ekki gerlegt að reyna að kemba yfir og lesa allt sem maður hefði áhúga á - þá færi nú tíminn fyrir lítið.

Hins vegar finnst gefandi að lesa pælingar sumra sem hafa eitthvað fram að færa og nefni ég þar blómarósina hana Lóu, sem er í tenglalistanum hér fyrir neðan, sem sýnir okkur svo um munar inn í reynsluheim ungrar og efnilegrar manneskju sem rær lífróður í baráttunni við krabbamein. Ég skora á ykkur að gefa ykkur tíma og kíkja á síðuna hennar, telja svo upp í huganum nokkur stærstu meinin í ykkar lífi - og bera saman við hennar.

Svo er gaman að kíkja í heimsókn á síður ættingja og vina og sjá hvað þeir eru að brasa, t.d. myndasíðuna hjá Sigurjóni bróður og svo var ansi skemmtileg lesning fyrir gamla Stöddara á síðunni hennar Þóru Bjarkar um togarann sem siglt var í strand inni á Öldu.  

Þá er ég kominn að því sem mér finnst sniðugast við bloggið, en það er að það TENGIR FÓLK. Ég er t.d. að átta mig á því að á nokkrum vikum hef ég átt samskipti við fullt af fólki sem ég hef ekki frétt af í mörg ár, allt vegna þess að ég er með þessa síðu. Mér finnst svo margir möguleikar opnast með einni svona vefgátt, t.d. að fermingar- og útskriftarárgangar eigi samskipti á slíkri síðu, heilu ættarmótin geta farið fram á þessum vettvangi og þar fram eftir götunum. Sem dæmi um möguleika þá datt mér í hug um daginn að búa til afmæliskort handa minni eiginkonu minni heittelskaðri, sem átti því láni að fagna að ná 40 ára markinu þann 27. apríl sl. Þá var hún stödd í París með móður sinni og systur en ég grasekkillinn, fór inn á póstinn hennar og sendi öllum í tenglalstanum hennar slóðina og lykilorðið á ,,afmæliskortið" sem er bloggsíða eins og þessi - http://hafdisl.blog.is Kíkið endilega á og sjáið afraksturinn. Þetta fékk hún að skoða þegar hún kom heim frá París. Og sem dæmi um hvað þetta virkar að þá var gömul skólasystir hennar flugfreyja í vélinni á heimleiðinni og hún vissi allt um afmælið og ferðina - og Hafdís skildi ekki neitt í neinu.

Þessir möguleikar eru að mínu mati óþrjótandi og flögra í allar áttir með hugmyndafluginu. Þess vegna er erfitt að snúa til baka þegar maður er búinn að hleypa svona bloggtilraun af stokkunum. Því lýsi ég bloggtilrauninni minni formlega lokið en hugsa að ég breyti úr rausi í eitthvað annað - þegar ég nenni að gefa mér tíma í það (matartíminn í vinnunni búinn og best að fara að nýta tímann í eitthvað af viti).

Góðar stundir kæru samferðamenn og ,,skjáumst" í bloggheimum.


Kynjakvóti og kynbundið launamisrétti - úrelt baráttumál!?!

Er ekki þarna komin lausnin á kvennaskorti í pólitík? Spurning hvort Samfylkingin geti ekki sturtað niður hinni fáráðu kynjakvótahugmynd sinni fyrir þessa lausn, þegar reynir á þann málaflokk í stjórnarsamstarfinu, og flokkarnir næðu saman með áætlun byggða á kynskiptingu valinna karla í stjórnarliðinu. Svo er bara að finna út hvaða hrútar væru líklegastir til að slá til ... LoL
mbl.is Bæði borgarstjórinn og makinn hafa skipt um kyn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sáðmennirnir og fræin

Það er svolítið mikið klént að talsmaður apans í hvíta húsinu tali um að dregið hafi úr trúverðugleika Carters. Ég held að það sé óhætt að segja að ef einhver fyrrverandi forseti Bandaríkjanna njóti trúnaðar og trausts sé það einmitt þessi aldni heiðursmaður.  Ég held að fæstir neiti því að Bússarinn hafi úr ansi litlu að spila í þeim efnum.

Ef við lítum til þeirra tveggja sem sáðmanna þá er óhætt að segja að innihald fræpokanna þeirra hafi verið harla ólíkt og uppskeran akranan þeirra eftir því. Þegar litið verður til verka forseta Bandaríkjanna í framtíðinni á seinni hluta 20. aldar og fyrri hluta þeirrar 21., verða þessir tveir mjög líklega teknir sem dæmi - Carter sem boðberi friðar og húmanisma en Bush sem boðberi stríðs og hörmunga.

 


mbl.is Hvíta Húsið: Carter skiptir ekki lengur máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ,,beinatískan

Ímyndarsköpun hefur mikið verið í umræðunni undanfarin misseri og þá einkum í tengslum við opnari umræðu um geðsjúkdóminn Anorexíu. Heilbrigði hefur allt of lengi verið einskorðað við algjöran niðurskurð á fitu, þar sem búnir hafa verið til einhverjir staðlar sem nánast óhugsandi er fyrir venjulegt fólk að falla inn í - svipað og þegar stjúpsystur Þyrnirósar voru að reyna að komast í skóinn hennar.

Auglýsing af stúlku sem horfir raunamædd á sjálfa sig í speglinum er eitt það magnaðasta tæki í þessari baráttu sem ég hef séð lengi og er það von mín að barátta þessara samtaka verði æ fleirum sem hættu eiga á að lenda í klóm átröskunar, til lífs og gæfu.

En það sem ég ætlaði að leggja inn hér í þessu samhengi, er innslag um þáttinn ,,America's next top model", sem ég sá í imbanum í gærkvöld. Þar var verið að fremja lokagrisjun í þáttinn, þ.e. þær líklegustu af öllum þeim fjölda sem sótti um. Og viti menn - í lokahópinn komust tvær stúlkur sem eru vel fyrir utan þá staðla sem gilt hafa í þessum heimi ímyndarsköpunar fram að þessu; háar vel vaxnar stúlkur, sem samvara sér vel. En sem dæmi um hvernig búið er að festa þessa mjónu-ímynd í sessi, þá skilgreindu þær sig sem stúlkur í yfirstærð, ,,supersized eða oversized" (man ekki hvaða orð þær notuðu). 

Sumum finnst þetta kannski ekki merkilegt, gefa lítið fyrir fegurðarsamkeppnir sem þessar og get ég í sjálfu sér tekið undir það. Hitt er annað mál að þessi iðnaður hefur áhrif á milljónir stúlkna á viðkvæmum aldri, um heim allan og að ekki sé talað um hugmyndir drengja um hvernig konum þeir ,,eigi" að laðast að. Því er það mikið gleðiefni ef þarna væri á ferðinni raunveruleg viðhorfsbreyting í átt frá beinatískunni. Ég vona svo sannarlega að svo sé.


Fótboltinn og frægðin

Ég var ekki hár í loftinu þegar fótboltinn heltók hugann og heilu dögunum eytt á ,,Balanum" sem er tún í miðju þorpsins á Stöðvarfirði (Kirkjubólsþorps). Ég man hvað ég var stoltur af Arsenaltreyjunni og stuttbuxunum sem mamma saumaði við hana, Puma goal- fótboltaskónum og Arsenal legghlífunum sem Jói á Borg vélaði einhvern veginn af mér í fáránlegum vöruskiptum. Bjarni Fel sýndi vikugamlar upptökur úr enska boltanum, í kvöldmatartímanum á laugardögum, og maður fékk undanþágu frá setu við matarborðið og mataðist með augun límd við svarthvítan skjáinn - vissi hvað hver einasti maður hét sem var inni á vellinum (fyrir utan línuverðina...). Svo kom litasjónvarpið og ég fór í heimsókn til Mörtu Vilbergs í kjallaranum á Sindrabergi til að sjá Arsenal keppa, en varð fyrir þvílíkum vonbrigðum því þeir voru í VARABÚNINGUNUM (sem mér fannst ekkert flottir, þó þeir væru alveg eins og ,,Súlubúningarnir"). En þrátt fyrir miklar og stífar æfingar varð lítið úr hinum stórum draumum um að keppa í ensku 1. deildinni (úrvals í dag) við hlið Frank Stapletons, Liam Brady og fleiri góðra kappa í fallbyssuliðinu. Heldur var venjan að sitja á grýttum varamannabekknum í klöppinn við malarvöllinn heima þegar keppt var í mínum aldursflokk.

Svo rankar maður við sér um 30 árum síðar þegar maður fréttir það síðastur manna að aðalhetjan í boltanum í gamla daga, Alan Ball (eða Alli bolti ef krafa væri um algjöra íslenskun hér), var víst að gefa upp öndina og stendur jarðarförin víst yfir þegar þetta er ritað. Ekki verið að fylgjast eins vel með þessum málum á upplýsingaöld og í æsku, þegar Tíminn og Sjónvarpið voru einu miðlarnir um þetta efni. Það er mikið vatn runnið til sjávar á þessum tíma og hefur fótboltaáhugi Somma litla Sunnuhvoli skolast að mestu leyti með því til hafs í leiðinni. Í það minnsta finnst mér það mesta tímaeyðsla að horfa á heilan fótboltaleik og hef ekki gert það í mörg herrans ár. En ekki hefði kall þó neitt á móti því að fara utan og horfa á einn slíkan leik - en það segir víst lítið um áhugann á efninu annað en að eiginkonan segist m.a.s. vera til í slíka ferð - og er fótbolti sennilega neðst á lista hennar yfir áhugamál. 

Áfram Arsenal! (hvað heita leikmennirnir þar núna ...... jú þessi franski .... ahhhh man það ekki...). 


Hvað eru prestar að pæla?

Alveg er ég að fá mig fullsaddan af helgislepjunni í blessuðum prestum landsins. Í einhverri skrípaleiks-atkvæðagreiðslu á einhverri prestastefnu ákveða þeir að samkynhneigðir megi ekki bindast bandi ástar og virðingar fyrir augliti guðs. Ekki það að þetta komi manni neitt á óvart miðað við stefnu biskups og kirkjunnar í málum samkynhneigðra. En þó að kirkjan hafi kennt mér siðaboðskap Krists (hversu hlálegt sem það hljómar í þessari umræðu) og ég reyni að fylgja honum mér og öðrum til heilla, eru takmörk fyrir hvað æðruleysið hjá manni endist gagnvart þessum herrum sem hreykja sér svo hátt. Þolinmæði mín er sem sagt á þrotum.

Hvað hefur þessi hópur embættismanna ríkisins sem á fyrst og fremst að gegna þjónustuhlutverki við almenning,  með þessi mál að gera. Ef þeir geta fellt svona úrskurð á sinni prestastefnu geta þá skólastjórar ákveðið á landsþingi skólastjóra að örvhentir fái ekki fullgild réttindi við lok grunn-, framhalds- eða háskóla? Þá fengju þessir öfuguggar (þ.e. þeir sem skrifa með öfugum ugga) klapp á kollinn við útskrift en í því fælist að þeir hefðu ekki sömu réttindi á við þá rétthentu þegar þeir sæktu um starf sem þeir hefðu mennun til. 

Mér sýnist kirkjan ekki eiga neitt annað skilið í þessum efnum en að þessi löggjörningur, þ.e. hjónavígslan, verði tekinn af þeim og látinn í hendur ábyrgari aðila, sem vinna út frá grunnmannréttindum fólks.

Best að enda þessa gremjulosun með vísu sem ég hnoðaði saman áðan af gefnu tilefni:

 

Hvað eru prestar að pæla?

með perrisma' og biblíustæla, 

og kaleik sem kannski er leigður,

ef Kristur var samkynhneigður.

 

 Með guðsblessun...


Bíddu.... hvaða ár er í Noregi?

Ja hérna. Ekki hefði ég trúað að hinn siðmenntaði stóri bróðir okkar í austri væri svona aftarlega á merinni í siðferðisþroska. Nú held ég að noskir feður og mæður þurfi að taka sig á í uppeldinu - nema að þeir hugsi eins og frændur þeirra á Íslandi og kenni skólakerfinu um.
mbl.is Konunum sjálfum að kenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað á ég að kjósa?

Þessi spurning er það helsta sem kemur í hugann þegar hann er leiddur að kosningum til hins háa Alþingis sem framundan eru. Mér finnst lítið fara fyrir eiginlegri kosningabaráttu - jú það er að sjálfsögðu umræða í fjölmiðlum, bæklingar eru farnir að kíkja glottandi inn um bréfalúguna en ósköp lítill titringur mælist á kosningaskjálftamælum. Það er eins og menn séu að reyna að vera ósammála um hina og þessa hluti, þrasandi um umhverfismál og stóriðju, líkt og sá málaflokkur hafi verið valinn sem það skásta til að hala inn einhver atkvæði á. Stjórnarandstöðuflokkarnir stefna að sjálfsögðu að því að fella stjórnina en Sjalla stóri bróður virðist vera nokk sama í vissu sinni um að vera treyst fyrir brúarsetu í þjóðarskútunni næstu fjögur árin.

Ég ætla nú ekki að hætta mér út á hálan ís pólitíkurinnar en er bara að velta þessu fyrir mér og reyna að átta mig á hvort mér tekst að ákveða í tæka tíð hverjum ég á að treysta fyrir atkvæði mínu. Mér finnst ástandið í dag einkennast af doða - þjóðin er eins og kýr sem hefur étið yfir sig af fóðurbæti og horfir sljóum augum yfir völlinn og veit ekki hvort hún á að standa, liggja, skíta eða halda áfram að éta. Blessaður bóndinn stendur álengdar og klórar sér í hausnum - reynir að finna út hvernig hann á að borga blessaðan fóðurbætinn, því hækkandi styrkirnir hverfa í afborganir af hátæknifjósinu og öllu hinu.

En hvað um það. Best að fylgjast með umræðunni næstu daga með opnum huga og kannski sér maður ljósið í tæka tíð. Nú, ef ekki þá er bara að loka augunum í kjörklefanum og .... 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband