Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fóstureyðingar - morð eða miskunnarverk?

Í kjölfar umræðunnar um fóstureyðingar um daginn vil ég benda á þráð þar sem tekist er á um þetta efni. Þar koma fram öfgasjónarmið úr áttum trúleysingja og trúmanna, auk annarra kommenta. Ég held að það sé mjög hollt að stilla sér upp við vegg og skoða þetta fordómalaust. Hvet ykkur til að gefa ykkur tíma og kíkja á þetta:

http://ragnareyra.blog.is/blog/ragnareyra/entry/255217/

Ég vil ekki vera að setjast í dómarasæti gagnvart þeim sem hafa tekið þessa afdrifaríku ákvörðun en þegar maður hefur staðið í því að vera að reyna eftir tæknilegum leiðum að kveikja líf er ennþá erfiðara að finna réttlætingu á þessum verknaði. Hins vegar hef ég lengi verið andstæðingur fóstureyðinga í hjarta mínu og hefur það ekkert með trúmál að gera heldur eigið hyggjuvit.


Kynjakvóti og kynbundið launamisrétti - úrelt baráttumál!?!

Er ekki þarna komin lausnin á kvennaskorti í pólitík? Spurning hvort Samfylkingin geti ekki sturtað niður hinni fáráðu kynjakvótahugmynd sinni fyrir þessa lausn, þegar reynir á þann málaflokk í stjórnarsamstarfinu, og flokkarnir næðu saman með áætlun byggða á kynskiptingu valinna karla í stjórnarliðinu. Svo er bara að finna út hvaða hrútar væru líklegastir til að slá til ... LoL
mbl.is Bæði borgarstjórinn og makinn hafa skipt um kyn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sáðmennirnir og fræin

Það er svolítið mikið klént að talsmaður apans í hvíta húsinu tali um að dregið hafi úr trúverðugleika Carters. Ég held að það sé óhætt að segja að ef einhver fyrrverandi forseti Bandaríkjanna njóti trúnaðar og trausts sé það einmitt þessi aldni heiðursmaður.  Ég held að fæstir neiti því að Bússarinn hafi úr ansi litlu að spila í þeim efnum.

Ef við lítum til þeirra tveggja sem sáðmanna þá er óhætt að segja að innihald fræpokanna þeirra hafi verið harla ólíkt og uppskeran akranan þeirra eftir því. Þegar litið verður til verka forseta Bandaríkjanna í framtíðinni á seinni hluta 20. aldar og fyrri hluta þeirrar 21., verða þessir tveir mjög líklega teknir sem dæmi - Carter sem boðberi friðar og húmanisma en Bush sem boðberi stríðs og hörmunga.

 


mbl.is Hvíta Húsið: Carter skiptir ekki lengur máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eru prestar að pæla?

Alveg er ég að fá mig fullsaddan af helgislepjunni í blessuðum prestum landsins. Í einhverri skrípaleiks-atkvæðagreiðslu á einhverri prestastefnu ákveða þeir að samkynhneigðir megi ekki bindast bandi ástar og virðingar fyrir augliti guðs. Ekki það að þetta komi manni neitt á óvart miðað við stefnu biskups og kirkjunnar í málum samkynhneigðra. En þó að kirkjan hafi kennt mér siðaboðskap Krists (hversu hlálegt sem það hljómar í þessari umræðu) og ég reyni að fylgja honum mér og öðrum til heilla, eru takmörk fyrir hvað æðruleysið hjá manni endist gagnvart þessum herrum sem hreykja sér svo hátt. Þolinmæði mín er sem sagt á þrotum.

Hvað hefur þessi hópur embættismanna ríkisins sem á fyrst og fremst að gegna þjónustuhlutverki við almenning,  með þessi mál að gera. Ef þeir geta fellt svona úrskurð á sinni prestastefnu geta þá skólastjórar ákveðið á landsþingi skólastjóra að örvhentir fái ekki fullgild réttindi við lok grunn-, framhalds- eða háskóla? Þá fengju þessir öfuguggar (þ.e. þeir sem skrifa með öfugum ugga) klapp á kollinn við útskrift en í því fælist að þeir hefðu ekki sömu réttindi á við þá rétthentu þegar þeir sæktu um starf sem þeir hefðu mennun til. 

Mér sýnist kirkjan ekki eiga neitt annað skilið í þessum efnum en að þessi löggjörningur, þ.e. hjónavígslan, verði tekinn af þeim og látinn í hendur ábyrgari aðila, sem vinna út frá grunnmannréttindum fólks.

Best að enda þessa gremjulosun með vísu sem ég hnoðaði saman áðan af gefnu tilefni:

 

Hvað eru prestar að pæla?

með perrisma' og biblíustæla, 

og kaleik sem kannski er leigður,

ef Kristur var samkynhneigður.

 

 Með guðsblessun...


Hvað á ég að kjósa?

Þessi spurning er það helsta sem kemur í hugann þegar hann er leiddur að kosningum til hins háa Alþingis sem framundan eru. Mér finnst lítið fara fyrir eiginlegri kosningabaráttu - jú það er að sjálfsögðu umræða í fjölmiðlum, bæklingar eru farnir að kíkja glottandi inn um bréfalúguna en ósköp lítill titringur mælist á kosningaskjálftamælum. Það er eins og menn séu að reyna að vera ósammála um hina og þessa hluti, þrasandi um umhverfismál og stóriðju, líkt og sá málaflokkur hafi verið valinn sem það skásta til að hala inn einhver atkvæði á. Stjórnarandstöðuflokkarnir stefna að sjálfsögðu að því að fella stjórnina en Sjalla stóri bróður virðist vera nokk sama í vissu sinni um að vera treyst fyrir brúarsetu í þjóðarskútunni næstu fjögur árin.

Ég ætla nú ekki að hætta mér út á hálan ís pólitíkurinnar en er bara að velta þessu fyrir mér og reyna að átta mig á hvort mér tekst að ákveða í tæka tíð hverjum ég á að treysta fyrir atkvæði mínu. Mér finnst ástandið í dag einkennast af doða - þjóðin er eins og kýr sem hefur étið yfir sig af fóðurbæti og horfir sljóum augum yfir völlinn og veit ekki hvort hún á að standa, liggja, skíta eða halda áfram að éta. Blessaður bóndinn stendur álengdar og klórar sér í hausnum - reynir að finna út hvernig hann á að borga blessaðan fóðurbætinn, því hækkandi styrkirnir hverfa í afborganir af hátæknifjósinu og öllu hinu.

En hvað um það. Best að fylgjast með umræðunni næstu daga með opnum huga og kannski sér maður ljósið í tæka tíð. Nú, ef ekki þá er bara að loka augunum í kjörklefanum og .... 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband