Rausað án ábyrgðar - eða hvað?

Eitthvað er lítið að gerast hjá mínum manni í bloggheimum og því er þetta raus mitt því ennþá skilgreint af minni hálfu sem bloggtilraun. Ég er ekki alveg viss um áhuga minn og löngun til að vera að útvarpa rausi mínu á Netinu, en ætla þó ekki að dæma mig úr leik strax á þessum vettvangi - gefa þessu smá séns.

Ég hef verið að velta þessu fyrirbæri ,,bloggi" fyrir mér upp á síðkastið og er ennþá að mynda mér skoðun á því. Þetta er að sjálfsögðu kjörinn vettvangur fyrir þá sem hafa eitthvað að segja og vilja koma því frá sér, skapa umræður um sín hjartans mál - láta rödd sína heyrast (þó í óeiginlegri merkingu sé). Svo er það vafraranna sjálfra að meta hvað er gott og hvað ekki. En þar sem þetta er tiltölulega ungur vettvangur þá er spurning hvaða reglur gilda um það sem sagt er, hvort þær eru yfirleitt til og hvort ekki sé ástæða  til að setja slíkar - líkt og siðareglur blaðamanna. Kannski þessi menningarkimi setji sér sjálfur óskráðar reglur í þessum efnum þegar fram líða stundir - hver veit.

Það má segja að hvert og eitt blogg sé í raun einkafréttastofa þess sem þar skrifar. Og því vekur þetta spurningu um ábyrgð ,,fréttastjórans" á því sem hann lætur frá sér fara. Mér finnst t.d. athugasemdir við greinar oft vera á dökkgráu svæði, þegar orð eins og ,,asni" og ,,hálfviti" eru viðhöfð um menn sem fjallað er um. Fyrst að tekið er mark á gróusögum bloggara t.d. um meinta leynifundi fundi stjórnmálaforingja er greinilegt að þessi vettvangur er farinn að vega nokkuð þungt í þjóðfélagsumræðunni. Þess vegna held ég að þeir sem hamra í sífellu inn á bloggið sitt verði að sjá sóma sinn í því að gæta tillitsemi við náungann (og sjálfan sig í leiðinni) og vanda til verka við þessa útgáfu sína á veraldarvefnum.

En eins og sagði hér í upphafi þá er ég sjálfur að gera upp við mig hvort þessi vettvangur á við mig. Gæti eins verið að ég vilji frekar skrifa í skúffuna heima en ef ég vil senda frá mér lesendagrein um ákveðið málefni getur verið gott að hafa aðganga að þessum einkamiðli, en þá getur náttúrulega liðið langt þar á milli og ekki víst að neinn lesandi hafi áhuga á svo stopulri útgáfu. En það er betra að mínu viti en að vera að senda frá sér stöðugt orðaflóð með rýru og tilgangslausu innihaldi.

Svo... þangað til næst! Skjáumst!

Sóli 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Jónsson

Þetta gengur bara fínt hjá þér Sóli minn.

Karl Jónsson, 11.4.2007 kl. 08:50

2 identicon

Ég sé ekki betur en þú eigir fullt erindi inn á þennan vettvang,sýnist mér á því sem komið er.

Sigurjón Snær (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 11:08

3 identicon

Varðandi siðareglur þá finnst mér siðareglan "Aðgát skal höfð í nærveru sálar", eiga við jafnt í bloggheimum sem annars staðar.

Sólrún (IP-tala skráð) 15.4.2007 kl. 01:33

4 Smámynd: Sólmundur Friðriksson

Þakka ykkur uppörvunarorð Kalli og Sigurjón bróðir, ekki að ég hafi verið eitthvað að örvænta, bara ekki viss um að ég nennti þessu. 

Já, þetta er rétt með aðgátina stóra sys. En það er nú þannig með okkur mannfólkið að við þurfum allsstaðar að vera með handrið til að styðja okkur við, og sjást þau allsstaðar í samfélaginu okkar, trúnni, umferðinni, siðareglum hinna ýmsu stétta, svo eitthvað sé nefnt. Þurfum að minna okkur stöðugt á þau grundvallaratriði sem fóstra mennskuna í samfélaginu okkar. Ábyrgð er að mínu mati grundvallarþáttur. Um leið og henni sleppir brotna þessi gildi sem við setjum okkur.

Kveðja, Sóli 

Sólmundur Friðriksson, 16.4.2007 kl. 12:24

5 Smámynd: Júlíus  Garðar Júlíusson

Komdu sæll.

Takk fyrir hlý orð í minn garð og fyrir aldeilis frábærar vísur Ef þú ert samþykkur því þá vildi ég gjarnan fá að birta þær á Kæreliksvefnum mínum undir þínu nafni að sjálfsögðu. En ég er sammála þér í greininni hér fyrir ofan.

Júlíus Garðar Júlíusson, 16.4.2007 kl. 13:00

6 Smámynd: Sólmundur Friðriksson

Sæll aftur. Gleður mig að þér líkar þetta hnoð mitt, og með birtingu á Kærleiksvefnum - inn er heiðurinn. 

Sólmundur Friðriksson, 16.4.2007 kl. 15:24

7 identicon

sæll Sólmundur, gaman að lesa greinarnar þínar, ég er alveg hjartanlega sammála þér í öllu sem þú skrifar um umferðina og allt það. en hitt er annað að nenna eða nenna ekki að BLOGGA ????? ég er nú bara með bloggsíðu fyrir sjálfa mig og aðra og ég veit að margir kíkja á hana reglulega bara til að fá fréttir af okkur hérna fyrir vestan og það er nú þannig sem flestir nota þessar bloggsíður, til þess að vinir og vandamenn sem búa annarsstaðar á landinu geti bara kíkt á bloggsíðuna hjá okkur og finna þá ekki eins mikið fyrir fjarlægðinni á milli.........Endilega haltu áfram að blogga......kveðja frá Þingeyrinni...

Sigrún Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 19:40

8 identicon

Gleðilegt sumar, gaman að fylgjast með í fjarska. 

Ég frétti í dag að það væri logn í Keflavík, leitt að fá ekki að njóta þess. (Smá grín)

Bestu kveðjur úr sól og sumri (allavega í dag).

Þóra Björk (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 18:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband