Hvað eru prestar að pæla?

Alveg er ég að fá mig fullsaddan af helgislepjunni í blessuðum prestum landsins. Í einhverri skrípaleiks-atkvæðagreiðslu á einhverri prestastefnu ákveða þeir að samkynhneigðir megi ekki bindast bandi ástar og virðingar fyrir augliti guðs. Ekki það að þetta komi manni neitt á óvart miðað við stefnu biskups og kirkjunnar í málum samkynhneigðra. En þó að kirkjan hafi kennt mér siðaboðskap Krists (hversu hlálegt sem það hljómar í þessari umræðu) og ég reyni að fylgja honum mér og öðrum til heilla, eru takmörk fyrir hvað æðruleysið hjá manni endist gagnvart þessum herrum sem hreykja sér svo hátt. Þolinmæði mín er sem sagt á þrotum.

Hvað hefur þessi hópur embættismanna ríkisins sem á fyrst og fremst að gegna þjónustuhlutverki við almenning,  með þessi mál að gera. Ef þeir geta fellt svona úrskurð á sinni prestastefnu geta þá skólastjórar ákveðið á landsþingi skólastjóra að örvhentir fái ekki fullgild réttindi við lok grunn-, framhalds- eða háskóla? Þá fengju þessir öfuguggar (þ.e. þeir sem skrifa með öfugum ugga) klapp á kollinn við útskrift en í því fælist að þeir hefðu ekki sömu réttindi á við þá rétthentu þegar þeir sæktu um starf sem þeir hefðu mennun til. 

Mér sýnist kirkjan ekki eiga neitt annað skilið í þessum efnum en að þessi löggjörningur, þ.e. hjónavígslan, verði tekinn af þeim og látinn í hendur ábyrgari aðila, sem vinna út frá grunnmannréttindum fólks.

Best að enda þessa gremjulosun með vísu sem ég hnoðaði saman áðan af gefnu tilefni:

 

Hvað eru prestar að pæla?

með perrisma' og biblíustæla, 

og kaleik sem kannski er leigður,

ef Kristur var samkynhneigður.

 

 Með guðsblessun...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gremjulosun, það er réttmætt nafn á þessu skrifi þínu, Sólmundur (skiljanlegt í hita leiksins), og vísuna mætti kalla Raus án ábyrgðar (eins og eldri pistil þinn), því að ekki er hún vel meint né byggð á staðreyndum. Hitt máttu eiga, að vel kanntu að kveða, "tæknilega séð". Ég bið þér Guðs blessunar og að þú megir, þótt síðar verði, nota kveðskaparhæfni þína, sem sífellt getur þroskazt og dýpkað, til að yrkja Guði til dýrðar og þeim sem hann sendi, Jesú Kristi, frelsara þínum.

Eins og þú sérð, er ég ekkert að gefa mig hér að pistli þínum þarna ofar. Eitt get ég þó nefnt: að kristin andstaða við giftingu samkynhneigðra felur ekki í sér, að þeir séu fordæmdir vegna einhvers í eðli þeirra eða einstaklingsgerð, ekki frekar en örvhentir; hneigðin undirliggjandi (samkynhneigð) er þeim ekki til áfellisdóms, en kristið hjónaband, "sem Guð ... hefur tengt saman," er milli karls og konu samkvæmt orðum Jesú í Mt.19.5-6, og því getar engir prestar breytt í raun, eða eiga þeir ekki að lúta sínum Drottni? Þar að auki eru mök fólks af sama kyni (sem eru athöfn, ekki eðli) lýst röng og andstæð vilja Guðs og varað við þeim, bæði í Gamla og Nýja testamentinu. Hvernig geta þá prestar blessað samvist upp á slík býti? -- Með góðum óskum,

Jón Valur Jensson, 26.4.2007 kl. 12:46

2 Smámynd: Sólmundur Friðriksson

Takk fyrir innleggið Jón Valur. Ég vona að ég hafi nú ekki sært neinn en vísan átti nú ekki að vera illa meint. Hins vegar finnst mér það að einblína á kynlífsathafnir fólks vera daður við pervertisma og notaði því það orð í vísunni. 

En það er víst himinn og haf milli okkar skoðana í þessum efnum og skoðanir manna ber að virða. Ég get bara ekki séð annað en að kirkjan sé í ansi mikill klípu því hún kemur til með að stangast á við boðskapinn hvernig sem hún snýr sér í þessu máli.

Og Guð blessi þig sömuleiðis!

Sólmundur Friðriksson, 26.4.2007 kl. 14:06

3 Smámynd: Unnar Rafn Ingvarsson

Ég er sammála þér Sóli. Prestar eru fyrst og fremst embættismenn, sem eiga að sinna sínum embættisskyldum. Úr því sem komið er er engin ástæða til að viðhalda þjóðkirkjunni, hún hefur fjarlægst þjóðina og getur séð um sig sjálf.

Unnar Rafn Ingvarsson, 27.4.2007 kl. 19:23

4 identicon

Sæll félagi,
minn bara farinn að blogga. Og strax búinn að fá íslandsmeistarann í orðhelgishætti ofsatrúarmanna uppá móti þér. Góður !

Bæti þér í búkkmarkið og hlakka til frekari færslna.

bestu kveðjur,
Palli.

Páll Steingrímsson (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 11:22

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sæll, Sólmundur, og afsakaðu að ég gleymdi að fylgjast með því, hvort ég fengi hér svör við athugasemd minni. Þau hef ég fengið, frá þér og þessum Páli. En því miður fyrir ykkur, þá snertir hvorugt þeirra við röksemdum mínum á neinn hátt. Páll lætur sér nægja aurslettu án ábyrgðar. Hann er sem sé hæfur til þess, það er ljóst. Hvað meira býr í honum, verður ekki vitað af þessu innleggi. Sjálfur viltu vera kurteis í tali, en glímir ekki við rök mín né upplýsingaratriði, leggur bara áherzlu á, að himinn og haf séu milli afstöðu minnar og þinnar, sem gæti virzt yfirlýsing um, að þú leggir ekki í rökræðu við mig. Svo er viðleitni þín til að réttlæta óyndislega og stirða vísu þína afar misheppnuð, bætir bara gráu ofan á svart, og þar er nú ekki kurteisi né sanngirni fyrir að fara. En þér getur þó alltaf farið fram úr þessu, bæði á kvæðasviði (segi ég af eigin reynslu) og í smekklegheitum í stíl, og gangi þér það sem allra bezt -- það er vel, en ekki illa meint.

Jón Valur Jensson, 5.5.2007 kl. 02:51

6 Smámynd: Sólmundur Friðriksson

Sæll Jón Valur og takk fyrir innlitið. Þú mátt túlka viðbrögð mín við innleggi þínu eins og þú vilt og berja þér á brjóst í leiðinni. Ofsi þinn og stærilæti líkist því þegar menn eru að reyna að hífa upp lítið sjálfsmat - og vona ég ef sú er raunin í þínu tilfelli, að þér gangi allt í haginn með það. Hvað varðar rökræður um málefnið, þá var ekki ætlunin að fara að eyða tímanum og orkunni í slíkt, enda er ég ekki að gefa þessu bloggrausi mikinn gaum. En til að skýra kurteisina gagnvart þér (sem þú ert greinilega hissa á og ekki sáttur við... ) þá er það vani minn að taka vel á móti gestum og ætla ég ekki að vera að breyta því. Mér finnst líka affarasælast að viðhafa slík gildi þegar ég er gestur sjálfur og sleppi því að hæða þá sem ég heimsæki. Og hvað varðar ummæli þín um kveðskap minn þá tek ég það ekki nærri mér, enda finnst mér sjálfum lítið til hans koma - en ,,come on" - er má aldrei gantast nálægt ykkur biblíubésunum?

En ég skal alveg virða þig og þína afstöðu en mér finnst þú undirstrika með henni, og þínir skoðanabræður innan kirkjunnar, að kirkjan sé í raun sértrúarsöfnuður sem eigi orðið ósköp litla innistæðu fyrir því að teljast leiðandi aðili í trúmálum landans, þ.e. að vera þjóðkirkja. Er ekki kominn tími til að klippa á naflastrenginn og leyfa henni að standa utan við ríkið okkar? Þá sæist í raun og veru hve margir myndu vilja fylgja henni að málum. A.m.k. er það mín skoðun að bókstafstrúin sem þú og þínir líkar aðhyllist eigi ekki að vera stefnumarkandi í stofnun sem kallast ÞJÓÐkirkja. En mér finnst ekkert að því að þið lokið ykkur af með skruddurnar ykkar á meðan við hinir úðum í okkur hrossakjöti.

Sólmundur Friðriksson, 7.5.2007 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband