Blogg - til hvers?

Ég hef lítið haft mig í frammi við að færa inn í bloggið, enda svo sem ekki ætlunin að kæfa allt í orðaflóði (eins og ég get átt ansi auðvelt með). En þessi síða er nú eiginlega könnun á þessu fyrirbæri og hvort þetta er eitthvað fyrir mig. Mér finnst einhvern veginn ég hafa mjög sjaldan þörf til að skrifa hér inn og hef verið að velta fyrir mér hverju það sætir. Líklegasta skýringin er sú að ég finni mig ekki almennilega í þessu umhverfi og ætla ég að leyfa henni að vera ofaná í þetta skiptið.

Í þessu samhengi knýja nokkrar spurningar á: 

Hvað er þetta blogg eiginlega? Til hvers er maður að blogga? Hvað er það sem fær fólk til þess? Hvenær er fólk að blogga, í vinnunni eða heima? Er bloggið gott eða slæmt? Hvernig kemur það til með að þróast?

 Ég ætla ekki að leitast við að svara þessu, en kannski koma einhver svör frá þeim sem villast hérna inn og skilja eftir athugasemd. Ég held að ef ég á að halda áfram í þessu af heilindum þurfi það að vera í kringum eitthvað annað en svona raus um fréttir og málefni líðandi stundar. Ég sé einhvern veginn ekki tilganginn í því og hreinlega nenni því varla. 

Mér finnst þetta fyrirbæri vera á stundum hálf tilgangslítið, nenni t.d. ekki að lesa um hvernig einhver burstaði tennurnar og hvað hann fékk sér í morgunmat o.s.frv. Margir sem fara hamförum í blogginu (og á ég þá ekki við þá sem eru með hversdaginn sem punkt í mynda- og tenglasíðum) eru að mínum dómi að svala athyglisþörf sinni og er það vel - en ég held að ég hafi ekki nógu mikið af henni til að fara inn á slíkar brautir (eins og ætlunin var með ,,rausinu"). Svo er lík svo margt í boði að það er ekki gerlegt að reyna að kemba yfir og lesa allt sem maður hefði áhúga á - þá færi nú tíminn fyrir lítið.

Hins vegar finnst gefandi að lesa pælingar sumra sem hafa eitthvað fram að færa og nefni ég þar blómarósina hana Lóu, sem er í tenglalistanum hér fyrir neðan, sem sýnir okkur svo um munar inn í reynsluheim ungrar og efnilegrar manneskju sem rær lífróður í baráttunni við krabbamein. Ég skora á ykkur að gefa ykkur tíma og kíkja á síðuna hennar, telja svo upp í huganum nokkur stærstu meinin í ykkar lífi - og bera saman við hennar.

Svo er gaman að kíkja í heimsókn á síður ættingja og vina og sjá hvað þeir eru að brasa, t.d. myndasíðuna hjá Sigurjóni bróður og svo var ansi skemmtileg lesning fyrir gamla Stöddara á síðunni hennar Þóru Bjarkar um togarann sem siglt var í strand inni á Öldu.  

Þá er ég kominn að því sem mér finnst sniðugast við bloggið, en það er að það TENGIR FÓLK. Ég er t.d. að átta mig á því að á nokkrum vikum hef ég átt samskipti við fullt af fólki sem ég hef ekki frétt af í mörg ár, allt vegna þess að ég er með þessa síðu. Mér finnst svo margir möguleikar opnast með einni svona vefgátt, t.d. að fermingar- og útskriftarárgangar eigi samskipti á slíkri síðu, heilu ættarmótin geta farið fram á þessum vettvangi og þar fram eftir götunum. Sem dæmi um möguleika þá datt mér í hug um daginn að búa til afmæliskort handa minni eiginkonu minni heittelskaðri, sem átti því láni að fagna að ná 40 ára markinu þann 27. apríl sl. Þá var hún stödd í París með móður sinni og systur en ég grasekkillinn, fór inn á póstinn hennar og sendi öllum í tenglalstanum hennar slóðina og lykilorðið á ,,afmæliskortið" sem er bloggsíða eins og þessi - http://hafdisl.blog.is Kíkið endilega á og sjáið afraksturinn. Þetta fékk hún að skoða þegar hún kom heim frá París. Og sem dæmi um hvað þetta virkar að þá var gömul skólasystir hennar flugfreyja í vélinni á heimleiðinni og hún vissi allt um afmælið og ferðina - og Hafdís skildi ekki neitt í neinu.

Þessir möguleikar eru að mínu mati óþrjótandi og flögra í allar áttir með hugmyndafluginu. Þess vegna er erfitt að snúa til baka þegar maður er búinn að hleypa svona bloggtilraun af stokkunum. Því lýsi ég bloggtilrauninni minni formlega lokið en hugsa að ég breyti úr rausi í eitthvað annað - þegar ég nenni að gefa mér tíma í það (matartíminn í vinnunni búinn og best að fara að nýta tímann í eitthvað af viti).

Góðar stundir kæru samferðamenn og ,,skjáumst" í bloggheimum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll og blessaður SOMMI stöddari.  Tilgangurinn með því að blogga er enginn.  En það er bara svo skemmtilegt.  Ég las reyndar bloggið hjá þér fyrst í gær.. líka hjá Sollu systir þinni (enda er ég aðeins að færa mig upp á skaftið með þetta).  Þegar ég blogga þá geri ég það fyrir mig.  Ég hef aldrei neitt almennilegt að segja þannig að ég er alltaf í ruglinu.. sem er svosem ekkert nýtt ég er bara þannig gerð.  En það er svo gaman að lesa einmitt síður eins og hjá Þóru Björk sem rifjar upp allt mögulegt fyrir manni.  Svo ef fólk á vini erlendis sem vilja vita allt... þó að allt geti verið ekkert... þá er bloggið svo góð leið að láta vita af sér.  Þó það séu engar fréttir.. ekkert að gerast þá er a.m.k. allt í lagi   Ekki hætta að blogga... ég held að við Stöddfjörðingar séum að yfirtaka bloggheiminn... pólitíska, fróðlega og ruglingslega bloggheiminn.  Kær kveðja frá Kópavogsgemlingum Helgu Ant.

Helga Antons stöddari (IP-tala skráð) 30.5.2007 kl. 15:06

2 Smámynd: Sólmundur Friðriksson

Sæl Helga Stöddari. Takk fyrir þarfti innlegg í þessa bloggkreppu. Það er alveg rétt að það þarf ekki alltaf að vera að einblína á tilganginn með öllu. Stundum er málið bara að hafa gaman - þá helgar tilgangurinn meðalið. Kær kveðja, Sommi

Sólmundur Friðriksson, 30.5.2007 kl. 15:22

3 identicon

Félagi, Ég held að þessi blogg fíkn sé bara sérdeilis fín fíkn fyrir þig að ánetjast.  Þú ert mjög svo ritfær og gott að lesa eftir þig. Þetta snýst nú líka um vel skrifaðan texta því þá er hægt að hafa gaman af stílnum þó maður sé ósammála innihaldinu.  Þessi miðill er náttúrulega algjört “overkill” en virkar kannski af því að maður getur leitt hann fullkomlega hjá sér og síðan þín er ekki fyrir neinum. En auðvitað verðuru að finna hjá þér þörfina til að halda úti svona síðu - kannski bara að vera ekki þögull eins og meirihlutinn.  Kannski hefði Einar Már bætt við í ljóðið sitt að þú gætir sannað tilvist þína ekki bara með andardrættinum fyrir framan spegilinn heldur líka með því bloggsíðan uppfærist reglulega.  En svo er þögnin líka gullvæg eins og þú veist. Ég hef í það minnsta tékkað á þér reglulega og þætti hreinlega súrt að sjá eftir rausinu í þér. Palli.

Palli (IP-tala skráð) 30.5.2007 kl. 17:47

4 identicon

Hæ Sommi minn frá Sunnuhvoli. Hahaha það er æðislega gaman að lesa bloggið þitt...flottur penni og ég hvet þig til að halda áfram að blogga með okkur, þrátt fyrir að miður sé spnnandi að lesa um hvað hver borðaði hvað í bítið, hvert sokkaval dagsins var, hvað hver eldaði og fleira fróðlegt í þá veruna þá er gaman að finna Stöddaratengslin sem hafa myndast hér.  Þóra frá Vinaminni sú kjarna frænka mín skrifar til að mynda alls kyns fróðleik um þorpið okkar....sjaldnast um morgunverðinn þó svo hægt sé að giska á hver hann er hverju sinni, Solla þín syst er með skemmtilegar hugleiðingar, Dandý er ávallt Dandý, ég tildæmis grilla oft....eða þannig, myndasafnið sem margir skarta er hrein snilld........Sommi minn þú ferð hvergi.

Fjóla Þorsteins (IP-tala skráð) 30.5.2007 kl. 23:30

5 Smámynd: Sólmundur Friðriksson

Takk fyrir kommentin, Palli og Fjóla. Ég er ekkert á förum þó svo að ég hafi fundið fyrir einhverri tilvistarkreppu í bloggheimum. En þetta með þögnina er góður punktur því þegar maður hefur ekkert að segja þá er stundum betra að þegja - og þá segir þögnin allt!

Sólmundur Friðriksson, 1.6.2007 kl. 10:07

6 identicon

Vei vei Sommi heldur áfram að blogga...skemmtilegur penni og stórskemmtilegur drengur.  Flott Sommi ÞEGIÐU bara á milli og eftir þögn kemur góður smellur frá þér um eitthvað sem vekur alla upp sem sofna  Tilvistarkreppan kemur við á flestum heimilum og annað væri bara ekkert skemmtilegt.  Ég borðaði sem sagt kornfleks í morgunmat og hef það sem af er degi verið í svörtum sokkum, hundlöt að blogga og já bara frekar fúl hahaha nei ég held að það sé að lagast.  Áfram Geirm....og Sólm..... trallallalla.....Nú er ég léttur.......

Fjóla Þorsteins (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 19:42

7 identicon

Sæll frændi ákvað að skilja eftir mig spor, kiki reglulega hér inn á síðuna hjá þér og hef gaman af . Hafðu það sem best og skilaðu  kveðju í bæjinn   kær kv Herborg

Herborg Þórðar (IP-tala skráð) 2.6.2007 kl. 19:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband