Gleðilegt ár allesammen!

Jæja, þá er komið nýtt ár einu sinni enn. Það byrjar hálf þreytulega hjá mér þar sem ég hef ekki náð að losa mig við desemberpestina, sem ég setti á pásu þegar jólasveinavertíðin byrjaði, og hef verið að njóta eftirkastanna af öllu bramoltinu fyrir jólin síðustu daga. En þetta er nú svo sem varla kvörtunarvert þar sem ég held nógu miklum kröftum til daglegra athafna en leggst svo endilangur að kvöldi yfir góðri bók (eitt af áramótaheitunum - að vera duglegri að lesa).

En hvað áramótaheitin varðar þá er ég aldrei með neitt sérstakt en hef þó hugsað að taka mig í gegn á ákveðnum sviðum sem ég tel vera mér og mínum til heilla - skerpa fókusinn á lífinu.

Það fóru frekar fá jólakort frá okkur hjónunum fyrir þessi jól, og er aðallega um að kenna önnum á aðventunni. Ég er að hugsa um að setjast niður við jólakortaskriftir fljótlega eftir sumarfrí.

Þó að árið sem var að líða sé tímamótaár hjá mér hvað aldurinn varðar þá var ég að fatta að ég á annað afmæli á þessu ári, en í sumar verða 25 ár frá því ég spilaði á mínum fyrsta dansleik, en það var með hljómsveitinni Bismarck í Samkomuhúsi Stöðfirðinga. Ekki fór mikið fyrir fólkinu á þessum mikla viðburði, man eftir Sveinbirni, bræðrunum Friðmari og Sigga á Gili.... og svo voru nokkrir aðrir. Bjössi í Dagsbrún var dyravörður og hafði ekkert að gera. Ég held samt að við höfum nú spilað allt ballið, enda til lítils að vera búnir að æfa upp programm og nota það ekkert. Þetta varð svo svanasöngur hljómsveitarinnar, sem hafði spilað grimmt árið áður (ekki með Somma litla í Sunnuhvoli innanborðs) og m.a.s gefið út plötu. Nokkur lög sem voru á programminu: Anyway you want með Chicago, Reykjavíkurblús og Þorparinn með Magga Eiríks, Hot Blooded með Foreigner, Black magic woman með Santana, Woman of our day með Svanfríði .... ofloflofl.....

En þarna er ég bara hálfdrættingur á við félaga Geirmund Valtýsson sem fagnar á árinu 50 ára bransaafmæli.... go Geiri!

Hef þetta ekki lengra og óska ykkur alls hins besta á komandi tíð.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband