1.10.2007 | 10:13
Spáð í stöðuna í leikhléi
Um helgina gekk ég í gegnum þau hamskipti að verða fertugur, hljóp til leikhlés eftir viðburðaríkan fyrri hálfleik og þá er að skoða málin í hálfleik - en fyrst nokkrar auglýsingar .... nei annars, sleppum þeim núna.
Mér finnst svo sem ekki neitt tiltökumál að vera orðinn fertugur, finnst ég bara hafa færst upp um deild (svo maður haldi nú fótboltalíkingunni áfram). Annras er fyndið að hugsa til þess að slík tímamót verði að stórri krísu í lífi fólks, og í raun mótsagnarkennt ef rétt reynist. Það er í raun svolítið ótrúlegt, að aldur skuli oft vera gerður að svona mikilli grýlu - að fólk skelfist það að eldast. En hvað þýðir það að eldast? Jú, að maður heldur lífi, dregur andann, vaknar að morgni og sofnar að kvöldi og um leið markar tilveru sinni þá stefnu sem maður telur heillavænlegasta fyrir sig, sína nánustu og sitt umhverfi.
Bíddu, en hvað er þá málið? Er ég að misskilja eitthvað, eða er lífið ekki það sem þessi tilvera manns snýst um? Af öllum frumhvötum okkar hlýtur lífsþráin að vera sú æðsta. Hvernig getur þá verið skelfilegt að eldast? Hvað er þá annað í boði en lífið? Jú, auðvitað dauðinn! En ekki viljum við mæta þeim gamla gaur fyrr en við komumst ekki hjá því - og það er jú þegar við erum orðin gömul, ekki satt?
Nei, auðvitað viljum við lifa, en hræðslan við að eldast er náttúrulega eftirsjáin eftir æskunni og atgerfi því sem hún býður uppá, með endalausum krafti, góðri heilsu, lífsgleði og áhyggjuleysi. En á æskuárunum er maður líka að þroskast og nokkuð laus við ábyrgð, og þá er ég kominn að kjarna málsins að mínu viti - þroska og ábyrgð. Farteskið í seinni hálfleik.
Fullorðinn maður ber ábyrgð á sjálfum sér, eigin heilsu og þroska. Ef við hlúum að þessu tvennu og lítum á lífið sem leið til að bæta sig á þessum sviðum ættum við ekki að þurfa að kvíða því að eldast. Merki aldurs sjást nefnilega yfirleitt best í hugarfari fólks.
Því ætla ég ekki að fara að taka upp á því (á fimmtugsaldri) að horfa með eftirsjá til æskuáranna og kvíða því sem framundan er. Fertugsheitið er því: Að hugsa um heilsuna og andlegan þroska, og að sjálfsögðu að spila til sigurs.
Seinni hálfleikur - hér kem ég!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)