23.3.2007 | 13:14
Hvað þarf til?
Er þetta ekki týpískt fyrir aga- og virðingaleysið í þessu blessaða þjóðfélagi okkar. Það er eins og menn séu að missa það gjörsamlega í þessari dauðadýrkun (dýrkun á dauðum hlutum og daðri við dauðann). Hversu langt á þessi dans í kringum gullkálfinn að ganga? Auglýsi hér með eftir einum ,,umferðar-Móse" til að öskra á lýðinn og koma vitinu fyrir hann.
Það er enginn nýr sannleikur að hraðakstur sem þessi er stundaður af lítt þroskuðum einstaklingum sem gera sér enga grein fyrir hverjar afleiðingar hegðunar þeirra gætu orðið - og liggur manni við að segja skítt með þá sjálfa - en þó þeir séu svo ,,heppnir" að kála aðeins sjálfum sér við þessa iðju þá gera þeir sér heldur ekki grein hvaða áhrif það hefði í fjölskyldu þeirra og vinahópi.
En hvað þarf til að stoppa þessa menn (ef þeir fljúga ekki sjálfir út í hraunið)? Ef maður gengi um götur með byssu dritandi út í loftið (sem hann hefði fullt leyfi fyrir, þ.e. byssunni) væri þá bara byssan tekin af honum með smá áminningu auk nokkurra þúsundkalla í sekt?
Þetta eru náttúruleg hegningarlagabrot og ekkert annað og á að meðhöndla sem slík, enda sífellt meiri vilji til þess hjá yfirvaldinu - og vonandi fá þeir betri vopn í hendurnar við baráttuna gegn þessu liði en þeir hafa haft hingað til.
![]() |
Myndir af mótorhjóli á ofsahraða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umferðarmál | Breytt 5.6.2007 kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.3.2007 | 14:42
Er það málið?
Eins og ég er sammála því að þurfi að taka umferðarmálin föstum tökum þá get ég ekki annað en verið ósammála þessari fullyrðingu sem fyrirsögnin felur í sér. Þó ég vilji síður en svo vera að setja mig á hærri hest en Sigurður og hans ágætu samstarfsmenn, þá held ég að þeim sjáist yfir mjög veigamikið atriði í þessum efnum. Að sjálfsögðu hefur aukin löggæsla áhrif og áróður getur skilað einhverju, en það eina sem ég held að virki almennilega gegn umferðarbrotum, svo ekki sé talað um ölvunarkstur, séu hertari viðurlög.
Hvaða skilaboð erum við að gefa ökumönnum sem breyta ökutækjum sínum í brynvarðar drápsvélar, með ölvunar- og/eða hraðakstri, þegar sektirnar eru ökuleyfissvifting í nokkra mánuði og smásektir? Engin önnur en þau að þetta sé eiginlega bara allt í lagi og skipti ekki svo miklu máli þó viðkomandi geri þetta aftur og aftur.
Ég held að í okkar efnishyggjusamfélagi nútímans fari menn ekki að hugsa fyrr en brotin koma við pyngjuna, því miður. Ég held að menn hlusti frekar á hvernig klingir í pyngjunni en viðvaranir í auglýsingum. Myndu menn ekki hugsa sig tvisvar um áður en þeir settust drukknir undir stýri, ef viðurlög við ölvunarakstri væru ævilangt ökubann og sekt sem væri ígildi nokkurra mánaðarlauna venjulegs launamanns, jafnvel að viðbættri samfélagsþjónustu? Myndi maður ekki hafa augun betur á hraðamælinum ef maður ætti von á himinhárri sekt sem setti strik í næstu mánaðaruppgjör heimilisins? Ég spyr!
![]() |
Aukin löggæsla samhliða markvissum áróðri besta leiðin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umferðarmál | Breytt 5.6.2007 kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.3.2007 | 15:37
Ýsa og aftur Ýsa!
,,Þú varst alinn upp á trosi í lífsins ólgusjó" kyrjaði Hörður Torfa hér um árið. Greinilegt er að þetta á ekki við um nema litla prósentu af yngri kynslóðum hins USA-vædda Íslands nútímans. Sjálfur er ég alinn upp í litlu sjávarþorpi og kann vel að meta fiskmeti af ýmsu tagi. Hins vegar minnist ég þess að þegar ég var á þeim aldri sem könnun þessi nær yfir, var fiskur langt því frá að vera uppáhaldsfæðan en þegar fram líða stundir fer maður að meta gæði þessa fæðuflokks meir og meir. Því er að mínu mati ástæðulaust að alhæfa út frá þessu að Íslendingar séu að hætta að borða fisk.
Í viðtalinu sem var með fréttinni er eingöngu talað um ýsuna þegar rætt var um matfisk, og í því liggur kannski hluti ástæðunnar fyrir minnkandi fiskneyslu ungs fólks, þ.e. að almennt er þjóðin ekki nógu vel að sér um þær tegundir matfisks sem í boði eru hér á landi. Tegundir eins og þorskur, ufsi, lúða og karfi, svo ekki sé rætt um kola, steinbít, skötusel og humar, skara langt fram úr ýsunni hvað gæði varðar, enda er hún hrææta blessunin. Hvernig væri að auka fræðslu ungs fólks á þessari flóru í stað þess að kenna fólki hvernig á að matreiða ýsu á annan hátt en í raspi.
![]() |
Fiskneysla fólks á aldrinum 17-26 ára dregst saman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt 5.6.2007 kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.3.2007 | 18:22
Ein bloggtilraunin enn
Sælt veri fólkið!
Fyrir allnokkrum misserum prófaði ég að byrja að blogga eins og allir voru að gera í kringum mig. Þessi tilraun var fljót að fjara út í sandinn, svipað og þegar ég reyndi sem ungur drengur að halda dagbók. En það er nú svo skrýtið að þrátt fyrir allt þá hef ég afskaplega gaman af að skrifa og get alveg misst mig þegar fingurgómarnir eru farnir að hitna á lyklaborðinu. Svo er bara spurningin hvort maður er að segja eitthvað af viti. Kannski var ástæðan fyrir stuttum líftíma í bloggheimum gamla sjálfsgagnrýnin, sú grámyglulega kerling sem fannst aldrei neitt nógu gott sem maður var að gera, en hefur á seinni árum orðið æ hásari eftir því sem minna hefur verið hlustað á hana. Og viti menn, þá hafa líka farið að fæðast ljóð, heilu lögin og textarnir, sem bíða áræðis og aðstæðna til útgáfu. En nóg um það í bili.
Á þessu nýja bloggheimili mínu er ætlunin að spjalla um það sem hugurinn girnist hverju sinni og ég er að velta vöngum yfir, án nokkurra kvaða um magn eða efni, heldur leyfa hugmyndum sem fram koma að flögra af stað og lenda mjúklega á hinum ímyndaða pappír bloggbókfellsins, - mér sjálfum til ánægju og vonandi fleirum sem vilja kíkja í heimsókn.
Skjáumst!
Sóli
Rausað | Breytt 5.6.2007 kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)