Færsluflokkur: Sprikl og spark

Brautryðjandinn Guðjón Þórðarson

Þvilíkur maður hann Guðjón! Svona menn gleymast seint í sögunni og uppskera að sjálfsögðu eins og sáð er til. Hann er einn af þessum eldheitu brautryðjendum í bransanum og hefur nú bætt enn einni skrautfjöðurinni í hattinn sinn, og leitt knattspyrnuna inn á óvæntar brautir með nýrri óskráðri siðareglu: ,,Foul play". Þetta tekur náttúrulega af öll tvímæli um að þarna er einstæður maður á ferð. Og skilaboðin sem hann gefur í hinum nýja boðskap: Sigur hvað sem það kostar án tillits til eigin æru, sonar eða félags.

Svo dirfist fólk til að halda því fram að fótboltinn sé brútal.


mbl.is Bjarni þurfti lögreglufylgd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fótboltinn og frægðin

Ég var ekki hár í loftinu þegar fótboltinn heltók hugann og heilu dögunum eytt á ,,Balanum" sem er tún í miðju þorpsins á Stöðvarfirði (Kirkjubólsþorps). Ég man hvað ég var stoltur af Arsenaltreyjunni og stuttbuxunum sem mamma saumaði við hana, Puma goal- fótboltaskónum og Arsenal legghlífunum sem Jói á Borg vélaði einhvern veginn af mér í fáránlegum vöruskiptum. Bjarni Fel sýndi vikugamlar upptökur úr enska boltanum, í kvöldmatartímanum á laugardögum, og maður fékk undanþágu frá setu við matarborðið og mataðist með augun límd við svarthvítan skjáinn - vissi hvað hver einasti maður hét sem var inni á vellinum (fyrir utan línuverðina...). Svo kom litasjónvarpið og ég fór í heimsókn til Mörtu Vilbergs í kjallaranum á Sindrabergi til að sjá Arsenal keppa, en varð fyrir þvílíkum vonbrigðum því þeir voru í VARABÚNINGUNUM (sem mér fannst ekkert flottir, þó þeir væru alveg eins og ,,Súlubúningarnir"). En þrátt fyrir miklar og stífar æfingar varð lítið úr hinum stórum draumum um að keppa í ensku 1. deildinni (úrvals í dag) við hlið Frank Stapletons, Liam Brady og fleiri góðra kappa í fallbyssuliðinu. Heldur var venjan að sitja á grýttum varamannabekknum í klöppinn við malarvöllinn heima þegar keppt var í mínum aldursflokk.

Svo rankar maður við sér um 30 árum síðar þegar maður fréttir það síðastur manna að aðalhetjan í boltanum í gamla daga, Alan Ball (eða Alli bolti ef krafa væri um algjöra íslenskun hér), var víst að gefa upp öndina og stendur jarðarförin víst yfir þegar þetta er ritað. Ekki verið að fylgjast eins vel með þessum málum á upplýsingaöld og í æsku, þegar Tíminn og Sjónvarpið voru einu miðlarnir um þetta efni. Það er mikið vatn runnið til sjávar á þessum tíma og hefur fótboltaáhugi Somma litla Sunnuhvoli skolast að mestu leyti með því til hafs í leiðinni. Í það minnsta finnst mér það mesta tímaeyðsla að horfa á heilan fótboltaleik og hef ekki gert það í mörg herrans ár. En ekki hefði kall þó neitt á móti því að fara utan og horfa á einn slíkan leik - en það segir víst lítið um áhugann á efninu annað en að eiginkonan segist m.a.s. vera til í slíka ferð - og er fótbolti sennilega neðst á lista hennar yfir áhugamál. 

Áfram Arsenal! (hvað heita leikmennirnir þar núna ...... jú þessi franski .... ahhhh man það ekki...). 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband