Færsluflokkur: Umferðarmál

Hvað þarf til?

Er þetta ekki týpískt fyrir aga- og virðingaleysið í þessu blessaða þjóðfélagi okkar. Það er eins og menn séu að missa það gjörsamlega í þessari dauðadýrkun (dýrkun á dauðum hlutum og daðri við dauðann). Hversu langt á þessi dans í kringum gullkálfinn að ganga? Auglýsi hér með eftir einum ,,umferðar-Móse" til að öskra á lýðinn og koma vitinu fyrir hann. 

Það er enginn nýr sannleikur að hraðakstur sem þessi er stundaður af lítt þroskuðum einstaklingum sem gera sér enga grein fyrir hverjar afleiðingar hegðunar þeirra gætu orðið - og liggur manni við að segja skítt með þá sjálfa - en þó þeir séu svo ,,heppnir" að kála aðeins sjálfum sér við þessa iðju þá gera þeir sér heldur ekki grein hvaða áhrif það hefði í fjölskyldu þeirra og vinahópi.

En hvað þarf til að stoppa þessa menn (ef þeir fljúga ekki sjálfir út í hraunið)? Ef maður gengi um götur með byssu dritandi út í loftið (sem hann hefði fullt leyfi fyrir, þ.e. byssunni) væri þá bara byssan tekin af honum með smá áminningu auk nokkurra þúsundkalla í sekt?

Þetta eru náttúruleg hegningarlagabrot og ekkert annað og á að meðhöndla sem slík, enda sífellt meiri vilji til þess hjá yfirvaldinu - og vonandi fá þeir betri vopn í hendurnar við baráttuna gegn þessu liði en þeir hafa haft hingað til.


mbl.is Myndir af mótorhjóli á ofsahraða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það málið?

Eins og ég er sammála því að þurfi að taka umferðarmálin föstum tökum þá get ég ekki annað en verið ósammála þessari fullyrðingu sem fyrirsögnin felur í sér. Þó ég vilji síður en svo vera að setja mig á hærri hest en Sigurður og hans ágætu samstarfsmenn, þá held ég að þeim sjáist yfir mjög veigamikið atriði í þessum efnum. Að sjálfsögðu hefur aukin löggæsla áhrif og áróður getur skilað einhverju, en það eina sem ég held að virki almennilega gegn umferðarbrotum, svo ekki sé talað um ölvunarkstur, séu hertari viðurlög.

Hvaða skilaboð erum við að gefa ökumönnum sem breyta ökutækjum sínum í brynvarðar drápsvélar, með ölvunar- og/eða hraðakstri, þegar sektirnar eru ökuleyfissvifting í nokkra mánuði og smásektir? Engin önnur en þau að þetta sé eiginlega bara allt í lagi og skipti ekki svo miklu máli þó viðkomandi geri þetta aftur og aftur.

Ég held að í okkar efnishyggjusamfélagi nútímans fari menn ekki að hugsa fyrr en brotin koma við pyngjuna, því miður. Ég held að menn hlusti frekar á hvernig klingir í pyngjunni en viðvaranir í auglýsingum. Myndu menn ekki hugsa sig tvisvar um áður en þeir settust drukknir undir stýri, ef viðurlög við ölvunarakstri væru ævilangt ökubann og sekt sem væri ígildi nokkurra mánaðarlauna venjulegs launamanns, jafnvel að viðbættri samfélagsþjónustu? Myndi maður ekki hafa augun betur á hraðamælinum ef maður ætti von á himinhárri sekt sem setti strik í næstu mánaðaruppgjör heimilisins? Ég spyr!


mbl.is Aukin löggæsla samhliða markvissum áróðri besta leiðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband