Færsluflokkur: Nostalgia
21.7.2007 | 14:12
Holdöpp a steikenöpp!
Skemmtilegt hvað nostalgian skýtur upp kollinum víða í bloggheimum. Fólk er að hittast á þessum vettvangi mun oftar en ella og jafnvel að skiptast á skilaboðum eftir margra ára samskiptaleysi. Systur mínar eru farnar að ,,klukka" fólk á blogginu (er ekki alveg búinn að fá botn í þann leik) og í kjölfarið að rifja upp leikina sem leiknir voru á Balanum á Stödda í gamla daga.
Einn gamall vinur og bekkjarbróðir úr barnaskóla, Svavar Hávarðsson, kom með skemmtilegt komment í gestabókina mína fyrir skömmu og fyrirsögnin no kaggo no kaggo nei" kveikti á nostalgíukubbnum um stund og hljómaði allt í einu í bland við skothvelli og brennisteinslykt af pappaskotrúllum, frasinn: ,,Holdöpp a steikenöpp! Þessi frasi var mikið notaður í kúrekaleikjum okkar félaganna og sagður með tilþrifum og hreim gömlu hetjanna í kúrekamyndunum eins og Jóns væna og fleiri góðra kappa. En aldrei pældum við í hvað þetta þýddi.
Fyrir nokkrum árum sá ég í atriði úr einni af þessum sígildu myndum þar sem aðalsöguhetjan dró Coltinn úr slíðrinu og öskraði: Stick' em up! og lét svo fylgja; ... an hold'em up! Og þvílík opinberun! Eftir að hafa fetað brautina í enskukennslu hins íslenska menntkerfis, varð mér allt í einu ljós, háskólamenntuðum manninum, merking og uppruni hins ógnandi frasa úr byssuleikjum barnæskunnar: Holdöpp a steikenöpp!
Lengi lærir sem lifir
Nostalgia | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)