Færsluflokkur: Lífstíll
10.5.2007 | 10:15
Er ,,beinatískan
Ímyndarsköpun hefur mikið verið í umræðunni undanfarin misseri og þá einkum í tengslum við opnari umræðu um geðsjúkdóminn Anorexíu. Heilbrigði hefur allt of lengi verið einskorðað við algjöran niðurskurð á fitu, þar sem búnir hafa verið til einhverjir staðlar sem nánast óhugsandi er fyrir venjulegt fólk að falla inn í - svipað og þegar stjúpsystur Þyrnirósar voru að reyna að komast í skóinn hennar.
Auglýsing af stúlku sem horfir raunamædd á sjálfa sig í speglinum er eitt það magnaðasta tæki í þessari baráttu sem ég hef séð lengi og er það von mín að barátta þessara samtaka verði æ fleirum sem hættu eiga á að lenda í klóm átröskunar, til lífs og gæfu.
En það sem ég ætlaði að leggja inn hér í þessu samhengi, er innslag um þáttinn ,,America's next top model", sem ég sá í imbanum í gærkvöld. Þar var verið að fremja lokagrisjun í þáttinn, þ.e. þær líklegustu af öllum þeim fjölda sem sótti um. Og viti menn - í lokahópinn komust tvær stúlkur sem eru vel fyrir utan þá staðla sem gilt hafa í þessum heimi ímyndarsköpunar fram að þessu; háar vel vaxnar stúlkur, sem samvara sér vel. En sem dæmi um hvernig búið er að festa þessa mjónu-ímynd í sessi, þá skilgreindu þær sig sem stúlkur í yfirstærð, ,,supersized eða oversized" (man ekki hvaða orð þær notuðu).
Sumum finnst þetta kannski ekki merkilegt, gefa lítið fyrir fegurðarsamkeppnir sem þessar og get ég í sjálfu sér tekið undir það. Hitt er annað mál að þessi iðnaður hefur áhrif á milljónir stúlkna á viðkvæmum aldri, um heim allan og að ekki sé talað um hugmyndir drengja um hvernig konum þeir ,,eigi" að laðast að. Því er það mikið gleðiefni ef þarna væri á ferðinni raunveruleg viðhorfsbreyting í átt frá beinatískunni. Ég vona svo sannarlega að svo sé.
Lífstíll | Breytt 5.6.2007 kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)