Hrikalegur draumur - sterkt tákn!

Lítið hefur farið fyrir færslum á Sólstafina það sem af er árinu enda í nóg önnur horn að líta hjá manni, sem ég ætla ekki að vera að útlista hér.

Ástæða þess að risinn er vaknaður af blundi sínum er draumur sem mig dreymdi nú í morgunsárið og ég þarf að ryðja frá mér:

Ég var staddur hjá fólki í Reykjavík, sem ég þekkti vel í draumnum en kann ekki skil á í raunheimum. Mér fannst ég sitja úti í garðhýsi á spjalli við hjónin og konan var að sýna mér nýjung í föndri hjá sér, sem var flétta úr nokkrum gulum blómum, sem ég veit ekki hvaða tegund var, gæti haf verið nokkurs konar fíflar - en þó með mun stærri krónu. Umræðan snýst eitthvað um blóm og grín í kringum setninguna ,,En ég er með ofnæmi fyrir blómum" (sem mig minnir að hafi verið í grínþætti í gamla daga).

Þar sem ég sit þarna með útsýni yfir borgina, verð ég var við að eitthvað gengur á á hæðinni ekki svo langt frá mér, sem er þá Skólavörðuholtið (en náttúrulega hálfgerð spegilmynd, eða óraunverulegt, eins og oft í draumum). Sé ég allt í einu mér til hrellingar að turninn á Hallgrímskrikju er farinn að hallast og hann eykst stöðugt, uns kirkjan fellur með látum á hliðina. Ég bíð eftir höggbylgjunni eftir fall þessa mikla risa en ekkert slíkt kemur. Heyri eins og í lýsingu á fréttastöð að einhver mistök hafi orðið hjá vinniflokki í kringum kirkjuna, sem hafi valdið þessum harmleik. Ég hugsa í lostinu: ,,Þetta er að gerast í alvöru og verður ekki aftur tekið". Þá drynur allt í einu við sprenging í miðju kirkjuhúsinu, fyrst ein stór og svo ein eða tvær litlar í kjölfarið, svo svartir sandstrókar gjósa upp úr hlið hinnar föllnu byggingar og hún laskast mikið (var í heilu lagi eftir fallið),en turninn liggur ennþá nokkuð heillegur.

Þarna vaknaði ég í þvílíku sjokki og sorg yfir þessu mikla reiðarslagi, og er svona að ná áttum þegar þetta er skrifað.

Einn sá magnaðasti draumur sem mig hefur dreymt lengi.


Bloggfærslur 27. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband