15.3.2007 | 18:22
Ein bloggtilraunin enn
Sælt veri fólkið!
Fyrir allnokkrum misserum prófaði ég að byrja að blogga eins og allir voru að gera í kringum mig. Þessi tilraun var fljót að fjara út í sandinn, svipað og þegar ég reyndi sem ungur drengur að halda dagbók. En það er nú svo skrýtið að þrátt fyrir allt þá hef ég afskaplega gaman af að skrifa og get alveg misst mig þegar fingurgómarnir eru farnir að hitna á lyklaborðinu. Svo er bara spurningin hvort maður er að segja eitthvað af viti. Kannski var ástæðan fyrir stuttum líftíma í bloggheimum gamla sjálfsgagnrýnin, sú grámyglulega kerling sem fannst aldrei neitt nógu gott sem maður var að gera, en hefur á seinni árum orðið æ hásari eftir því sem minna hefur verið hlustað á hana. Og viti menn, þá hafa líka farið að fæðast ljóð, heilu lögin og textarnir, sem bíða áræðis og aðstæðna til útgáfu. En nóg um það í bili.
Á þessu nýja bloggheimili mínu er ætlunin að spjalla um það sem hugurinn girnist hverju sinni og ég er að velta vöngum yfir, án nokkurra kvaða um magn eða efni, heldur leyfa hugmyndum sem fram koma að flögra af stað og lenda mjúklega á hinum ímyndaða pappír bloggbókfellsins, - mér sjálfum til ánægju og vonandi fleirum sem vilja kíkja í heimsókn.
Skjáumst!
Sóli
Meginflokkur: Rausað | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 5.6.2007 kl. 14:58 | Facebook
Athugasemdir
Velkominn í hópinn kæri félagi. Orðinn Suðurnesjamaður bara, ekki það vinsælasta hjá okkur körfuboltamönnunum en það má sannarlega gera undantekningar á því fyrir gott fólk.
Heyri vonandi meira frá þér.
kj
Karl Jónsson, 19.3.2007 kl. 06:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning