6.10.2008 | 17:59
Komin á hliðina eða enn að hallast....??
Fyrir um hálfu ári dreymdi mig draum sem vakti mér mikinn ugg um þjóðfélagsmálin og hefur verið ofarlega í huga mér í ástandinu síðustu misseri. Ég setti hann á bloggið á sínum tíma en hér er kjarninn úr honum:
Þar sem ég sit þarna með útsýni yfir borgina, verð ég var við að eitthvað gengur á á hæðinni ekki svo langt frá mér, sem er þá Skólavörðuholtið (en náttúrulega hálfgerð spegilmynd, eða óraunverulegt, eins og oft í draumum). Sé ég allt í einu mér til hrellingar að turninn á Hallgrímskrikju er farinn að hallast og hann eykst stöðugt, uns kirkjan fellur með látum á hliðina. Ég bíð eftir höggbylgjunni eftir fall þessa mikla risa en ekkert slíkt kemur. Heyri eins og í lýsingu á fréttastöð að einhver mistök hafi orðið hjá vinniflokki í kringum kirkjuna, sem hafi valdið þessum harmleik. Ég hugsa í lostinu: ,,Þetta er að gerast í alvöru og verður ekki aftur tekið". Þá drynur allt í einu við sprenging í miðju kirkjuhúsinu, fyrst ein stór og svo ein eða tvær litlar í kjölfarið, svo svartir sandstrókar gjósa upp úr hlið hinnar föllnu byggingar og hún laskast mikið (var í heilu lagi eftir fallið),en turninn liggur ennþá nokkuð heillegur.
Hér kemur svo hugleiðing frá ónefndum ritstjóra bloggsíðu um drauma (http://draumar.blog.is/blog/draumar/) sem ég setti drauminn inná:
.... En örlítið að draumnum þínum, sem ég las á blogginu þínu og finnst afar áhugaverður. Ástæða þess er sú að þessi draumur er mjög sterkur og með táknum sem afar ólíklegt er að þú hefðir verið að hugsa um í vöku eða yfirleitt að velta þér uppúr, "hrun Hallgrímskirkju". Kirkjuturn þykir almennt gott draumtákn og er þá gjarnan bendlaður við hamingju og endurgoldna ást. Hruninn turn er á hinn bóginn ekki jafn jákvætt og gæti verið fyrirboði um brostnar vonir af einhverju tagi. Í þessum draumi þínum er þó eitthvað sem segir mér að fall Hallgrímskirkju, sem er ákveðið borgartákn og tákn festu, geti falist fyrirboði stórra óvæntra hluta sem gerast í samfélaginu frekar en í þínu persónulega lífi. Fráfall einhvers mikils metins eða þá að einhverjar stoðir í samfélaginu bregðast, hlutir sem fólk treystir að ekkert geti haggað, en komi svo eins og köld gusa að allt annað sé uppá teningnum.
Magnað!
Svo er bara spurning hvort kirkjan er komin á hliðina eða hvað...?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.