Hvatning og fyrirmyndir

Datt inn í ansi magnaðan sjónvarpsþátt í fyrrakvöld held ég, á sjóngufunni, um uppeldismál. Þetta var skoskur þáttur þar sem verið var að fjalla um áhrif mismunandi uppeldisaðstæðna á persónuleika barna, fylgst var með nokkrum fjölskyldum og lögð próf fyrir börnin sem og verkefni sem foreldrar áttu að leysa úr.

Það kom svo sem ekkert nýtt fram í þessum þætti, en myndin var dregin mjög skýrt fram í dagsljósið, hversu mikill lykilþáttur utanumhald foreldra er í uppeldi barna þeirra, að þeir hvetji börnin sín til dáða og séu einnig góðar og traustar fyrirmyndir. Aldrei of lítið af slíku borið á borð á þessum tímum þar sem tilhneigingin er því miður allt of mikil að firra sig ábyrgð og skella skuldinni á stofnanir samfélagsins.

Sem dæmi um hve hvatningin getur fleytt manni áfram, þá var ég 11-12 ára þegar móðir mín fékk mér gítar í hendur og námsefni sem ég gat lært eftir heima. Ég greip þetta á lofti og sé ekki eftir því í dag, enda tónlist og hljóðfæraleikur órofa þáttur í lífi og starfi hjá mér. Þarna fékk ég hvatningu og hvað  fyrirmynd varðar þá hafði hún mamma líka oft spilað og sungið fyrir okkur Sollu þegar við vorum lítil.

Góð hvatning og fyrirmynd. Ég gæti ekki gert mér í hugarlund hvert ég hefði stefnt ef ég hefði ekki orðið þessarar gæfu aðnjótandi. Takk mamma!:) 


Tímar breytinga

Sælir góðir gestir (ef einhverjir nenna ennþá að fara inn á þetta stopula blogg).

Engjadalur
Síðasti mánuður hefur verið nokkuð erilsamur í einkalífi sem og starfi. Við Hafdís fluttum í nýja íbúð að Engjadal 4  í Reykjanesbæ (n.t.t. í Innri-Njarðvík) fyrir ca. mánuði, brunumðum svo austur í fjörðinn fagra kenndan við Stöð um þarsíðustu helgi og fengum Agnesi mína í heimsókn um þá síðustu en hún dvaldi hjá okkur frá miðvikudegi fram á laugardagskvöld.
Við hjónin höfum bæði verið á milli vita með atvinnu en þau mál eru nú að skýrast, ég byrjaður á nýjum stað hjá tölvufyrirtæki sem heitir DaCoda en Hafdís fer á samning um mánaðarmót hjá snyrtistofunni Dekrinu í Keflavík. Svo hefur verið nóg að gera hjá mínum í að skemmta þeim félögum skrattanum og guði, þ.e. að spila fyrir fyrir drukkið og dansandi fólk annars vegar og syngja í kirkjukórnum hins vegar. Að auki er maðurinn alltaf að fikra sig á nýjar lendur í gítarkennslu og er markið sett hátt á þeim grundvelli í náinni framtíð.
Ég ætlaði nú aldrei að vera með svona dagbókarblogg en þegar maður er ekki að sinna þessu nema rétt einu sinni í mánuði er kjörið að sýna gestum (ef einhverjir eru) að maður er ekki alveg liðinn undir lok (og ástæða fyrir færsluleysi í bloggheimum).
Hef þetta ekki lengra í bili. Blessi ykkur allt sem gott er!
Sóli

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband