Rausað án ábyrgðar - eða hvað?

Eitthvað er lítið að gerast hjá mínum manni í bloggheimum og því er þetta raus mitt því ennþá skilgreint af minni hálfu sem bloggtilraun. Ég er ekki alveg viss um áhuga minn og löngun til að vera að útvarpa rausi mínu á Netinu, en ætla þó ekki að dæma mig úr leik strax á þessum vettvangi - gefa þessu smá séns.

Ég hef verið að velta þessu fyrirbæri ,,bloggi" fyrir mér upp á síðkastið og er ennþá að mynda mér skoðun á því. Þetta er að sjálfsögðu kjörinn vettvangur fyrir þá sem hafa eitthvað að segja og vilja koma því frá sér, skapa umræður um sín hjartans mál - láta rödd sína heyrast (þó í óeiginlegri merkingu sé). Svo er það vafraranna sjálfra að meta hvað er gott og hvað ekki. En þar sem þetta er tiltölulega ungur vettvangur þá er spurning hvaða reglur gilda um það sem sagt er, hvort þær eru yfirleitt til og hvort ekki sé ástæða  til að setja slíkar - líkt og siðareglur blaðamanna. Kannski þessi menningarkimi setji sér sjálfur óskráðar reglur í þessum efnum þegar fram líða stundir - hver veit.

Það má segja að hvert og eitt blogg sé í raun einkafréttastofa þess sem þar skrifar. Og því vekur þetta spurningu um ábyrgð ,,fréttastjórans" á því sem hann lætur frá sér fara. Mér finnst t.d. athugasemdir við greinar oft vera á dökkgráu svæði, þegar orð eins og ,,asni" og ,,hálfviti" eru viðhöfð um menn sem fjallað er um. Fyrst að tekið er mark á gróusögum bloggara t.d. um meinta leynifundi fundi stjórnmálaforingja er greinilegt að þessi vettvangur er farinn að vega nokkuð þungt í þjóðfélagsumræðunni. Þess vegna held ég að þeir sem hamra í sífellu inn á bloggið sitt verði að sjá sóma sinn í því að gæta tillitsemi við náungann (og sjálfan sig í leiðinni) og vanda til verka við þessa útgáfu sína á veraldarvefnum.

En eins og sagði hér í upphafi þá er ég sjálfur að gera upp við mig hvort þessi vettvangur á við mig. Gæti eins verið að ég vilji frekar skrifa í skúffuna heima en ef ég vil senda frá mér lesendagrein um ákveðið málefni getur verið gott að hafa aðganga að þessum einkamiðli, en þá getur náttúrulega liðið langt þar á milli og ekki víst að neinn lesandi hafi áhuga á svo stopulri útgáfu. En það er betra að mínu viti en að vera að senda frá sér stöðugt orðaflóð með rýru og tilgangslausu innihaldi.

Svo... þangað til næst! Skjáumst!

Sóli 


Bloggfærslur 10. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband