2.1.2008 | 18:41
Gleðilegt ár allesammen!
Jæja, þá er komið nýtt ár einu sinni enn. Það byrjar hálf þreytulega hjá mér þar sem ég hef ekki náð að losa mig við desemberpestina, sem ég setti á pásu þegar jólasveinavertíðin byrjaði, og hef verið að njóta eftirkastanna af öllu bramoltinu fyrir jólin síðustu daga. En þetta er nú svo sem varla kvörtunarvert þar sem ég held nógu miklum kröftum til daglegra athafna en leggst svo endilangur að kvöldi yfir góðri bók (eitt af áramótaheitunum - að vera duglegri að lesa).
En hvað áramótaheitin varðar þá er ég aldrei með neitt sérstakt en hef þó hugsað að taka mig í gegn á ákveðnum sviðum sem ég tel vera mér og mínum til heilla - skerpa fókusinn á lífinu.
Það fóru frekar fá jólakort frá okkur hjónunum fyrir þessi jól, og er aðallega um að kenna önnum á aðventunni. Ég er að hugsa um að setjast niður við jólakortaskriftir fljótlega eftir sumarfrí.
Þó að árið sem var að líða sé tímamótaár hjá mér hvað aldurinn varðar þá var ég að fatta að ég á annað afmæli á þessu ári, en í sumar verða 25 ár frá því ég spilaði á mínum fyrsta dansleik, en það var með hljómsveitinni Bismarck í Samkomuhúsi Stöðfirðinga. Ekki fór mikið fyrir fólkinu á þessum mikla viðburði, man eftir Sveinbirni, bræðrunum Friðmari og Sigga á Gili.... og svo voru nokkrir aðrir. Bjössi í Dagsbrún var dyravörður og hafði ekkert að gera. Ég held samt að við höfum nú spilað allt ballið, enda til lítils að vera búnir að æfa upp programm og nota það ekkert. Þetta varð svo svanasöngur hljómsveitarinnar, sem hafði spilað grimmt árið áður (ekki með Somma litla í Sunnuhvoli innanborðs) og m.a.s gefið út plötu. Nokkur lög sem voru á programminu: Anyway you want með Chicago, Reykjavíkurblús og Þorparinn með Magga Eiríks, Hot Blooded með Foreigner, Black magic woman með Santana, Woman of our day með Svanfríði .... ofloflofl.....
En þarna er ég bara hálfdrættingur á við félaga Geirmund Valtýsson sem fagnar á árinu 50 ára bransaafmæli.... go Geiri!
Hef þetta ekki lengra og óska ykkur alls hins besta á komandi tíð.
Athugasemdir
Blessaður Sólmundur og gleðilegt ár.
Ert þú ekki töluvert yngri en Geirmundur? þú getur kannski eftir allt saman haldið upp á 5o árin áður en langt um líður.
Ég er löngu hætt að muna hvað ég er gömul, og þarf alltaf reglulega að leggjast í stærðfærði og reikna það út. En það þroskar bara heilann er mér sagt.
Hér héldum við í jólahefðirnar og í ár voru það Erna, Axel og Björgvin sem björguðu þessu og voru veik yfir hátíðarnar, Björgvin var í raun orðin hress þegar aðfangadagur var að baki.
Eigðið gott ár.
Nýárskveðjur frá Vinaminni
Þóra Björk (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 19:11
Gleðilegt ár kæri bróðir Hlakka til að hitta ykkur sem allra oftast á nýja árinu. Kannski ég verði dugleg að skella mér til útlanda hehe, það er svo góð hótelþjónustan þarna suðurfrá.
Solveig Friðriksdóttir, 3.1.2008 kl. 09:09
Gleðilegt ár og takk fyrir síðast.Ég er sammála Sollu,þetta er fínasta hótel og tilvalið að njóta þess þegar maður á leið í bæinn.
Sigurjón Friðriksson (IP-tala skráð) 3.1.2008 kl. 18:09
Kæri bróðir, Gleðilegt ár og hafið það gott á nýju ári.
Áslaug (IP-tala skráð) 3.1.2008 kl. 21:54
Gleðilegt ár gæskur!
Var ekki líka tekið "sister goldenhair" með Ameríku - með duddurududdu sólói frá Maxel (var hann kannski ekki í Bismark?)
pgs
Palli (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 21:25
Gleðilegt árið Sóli, Woman of our day, það var nú málið: Gooday madam, I´m your only Adam, og svo frv og bassalínur Gunnars Hermannssonar. Gangi þér allt í haginn kæri vinur.
Garðar Harðar (IP-tala skráð) 6.1.2008 kl. 23:25
Ekki get ég nú bætt við fleiri lögum úr skjóðu minninga. Getur það komið af mörgu... hinsvegar fæ ég rosaleg vodkabragð i munninn og heyri black magic woman fada inn og út með einhverskonar bergmálseffkt. Getur verið aldurinn, getur verið tíminn sem liðin er hafi eitthvað böggað hljóðsporið með þessari dimmleytu minningu , getur líka verið að hljóðsporið hafi aldrei verið tekið almenniglega upp. Vodki í míkrafónininum eða eitthvað. Anyways... böllin eru ekki eins og þau einusinni voru. En eitt er ég búinnn að þurka varanlega af harðadiskinum og það er allt sem hefur med Geira að gera. Have mercy. There you have my 5 cents.
U (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 22:12
Gleðilegt ár og takk fyrir öll þau gömlu..
Alda Rut (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 16:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.