26.4.2007 | 11:56
Hvað eru prestar að pæla?
Alveg er ég að fá mig fullsaddan af helgislepjunni í blessuðum prestum landsins. Í einhverri skrípaleiks-atkvæðagreiðslu á einhverri prestastefnu ákveða þeir að samkynhneigðir megi ekki bindast bandi ástar og virðingar fyrir augliti guðs. Ekki það að þetta komi manni neitt á óvart miðað við stefnu biskups og kirkjunnar í málum samkynhneigðra. En þó að kirkjan hafi kennt mér siðaboðskap Krists (hversu hlálegt sem það hljómar í þessari umræðu) og ég reyni að fylgja honum mér og öðrum til heilla, eru takmörk fyrir hvað æðruleysið hjá manni endist gagnvart þessum herrum sem hreykja sér svo hátt. Þolinmæði mín er sem sagt á þrotum.
Hvað hefur þessi hópur embættismanna ríkisins sem á fyrst og fremst að gegna þjónustuhlutverki við almenning, með þessi mál að gera. Ef þeir geta fellt svona úrskurð á sinni prestastefnu geta þá skólastjórar ákveðið á landsþingi skólastjóra að örvhentir fái ekki fullgild réttindi við lok grunn-, framhalds- eða háskóla? Þá fengju þessir öfuguggar (þ.e. þeir sem skrifa með öfugum ugga) klapp á kollinn við útskrift en í því fælist að þeir hefðu ekki sömu réttindi á við þá rétthentu þegar þeir sæktu um starf sem þeir hefðu mennun til.
Mér sýnist kirkjan ekki eiga neitt annað skilið í þessum efnum en að þessi löggjörningur, þ.e. hjónavígslan, verði tekinn af þeim og látinn í hendur ábyrgari aðila, sem vinna út frá grunnmannréttindum fólks.
Best að enda þessa gremjulosun með vísu sem ég hnoðaði saman áðan af gefnu tilefni:
Hvað eru prestar að pæla?
með perrisma' og biblíustæla,
og kaleik sem kannski er leigður,
ef Kristur var samkynhneigður.
Með guðsblessun...
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.6.2007 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.4.2007 | 07:01
Bíddu.... hvaða ár er í Noregi?
![]() |
Konunum sjálfum að kenna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 5.6.2007 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.4.2007 | 11:43
Hvað á ég að kjósa?
Þessi spurning er það helsta sem kemur í hugann þegar hann er leiddur að kosningum til hins háa Alþingis sem framundan eru. Mér finnst lítið fara fyrir eiginlegri kosningabaráttu - jú það er að sjálfsögðu umræða í fjölmiðlum, bæklingar eru farnir að kíkja glottandi inn um bréfalúguna en ósköp lítill titringur mælist á kosningaskjálftamælum. Það er eins og menn séu að reyna að vera ósammála um hina og þessa hluti, þrasandi um umhverfismál og stóriðju, líkt og sá málaflokkur hafi verið valinn sem það skásta til að hala inn einhver atkvæði á. Stjórnarandstöðuflokkarnir stefna að sjálfsögðu að því að fella stjórnina en Sjalla stóri bróður virðist vera nokk sama í vissu sinni um að vera treyst fyrir brúarsetu í þjóðarskútunni næstu fjögur árin.
Ég ætla nú ekki að hætta mér út á hálan ís pólitíkurinnar en er bara að velta þessu fyrir mér og reyna að átta mig á hvort mér tekst að ákveða í tæka tíð hverjum ég á að treysta fyrir atkvæði mínu. Mér finnst ástandið í dag einkennast af doða - þjóðin er eins og kýr sem hefur étið yfir sig af fóðurbæti og horfir sljóum augum yfir völlinn og veit ekki hvort hún á að standa, liggja, skíta eða halda áfram að éta. Blessaður bóndinn stendur álengdar og klórar sér í hausnum - reynir að finna út hvernig hann á að borga blessaðan fóðurbætinn, því hækkandi styrkirnir hverfa í afborganir af hátæknifjósinu og öllu hinu.
En hvað um það. Best að fylgjast með umræðunni næstu daga með opnum huga og kannski sér maður ljósið í tæka tíð. Nú, ef ekki þá er bara að loka augunum í kjörklefanum og ....
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.6.2007 kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2007 | 11:37
Rausað án ábyrgðar - eða hvað?
Eitthvað er lítið að gerast hjá mínum manni í bloggheimum og því er þetta raus mitt því ennþá skilgreint af minni hálfu sem bloggtilraun. Ég er ekki alveg viss um áhuga minn og löngun til að vera að útvarpa rausi mínu á Netinu, en ætla þó ekki að dæma mig úr leik strax á þessum vettvangi - gefa þessu smá séns.
Ég hef verið að velta þessu fyrirbæri ,,bloggi" fyrir mér upp á síðkastið og er ennþá að mynda mér skoðun á því. Þetta er að sjálfsögðu kjörinn vettvangur fyrir þá sem hafa eitthvað að segja og vilja koma því frá sér, skapa umræður um sín hjartans mál - láta rödd sína heyrast (þó í óeiginlegri merkingu sé). Svo er það vafraranna sjálfra að meta hvað er gott og hvað ekki. En þar sem þetta er tiltölulega ungur vettvangur þá er spurning hvaða reglur gilda um það sem sagt er, hvort þær eru yfirleitt til og hvort ekki sé ástæða til að setja slíkar - líkt og siðareglur blaðamanna. Kannski þessi menningarkimi setji sér sjálfur óskráðar reglur í þessum efnum þegar fram líða stundir - hver veit.
Það má segja að hvert og eitt blogg sé í raun einkafréttastofa þess sem þar skrifar. Og því vekur þetta spurningu um ábyrgð ,,fréttastjórans" á því sem hann lætur frá sér fara. Mér finnst t.d. athugasemdir við greinar oft vera á dökkgráu svæði, þegar orð eins og ,,asni" og ,,hálfviti" eru viðhöfð um menn sem fjallað er um. Fyrst að tekið er mark á gróusögum bloggara t.d. um meinta leynifundi fundi stjórnmálaforingja er greinilegt að þessi vettvangur er farinn að vega nokkuð þungt í þjóðfélagsumræðunni. Þess vegna held ég að þeir sem hamra í sífellu inn á bloggið sitt verði að sjá sóma sinn í því að gæta tillitsemi við náungann (og sjálfan sig í leiðinni) og vanda til verka við þessa útgáfu sína á veraldarvefnum.
En eins og sagði hér í upphafi þá er ég sjálfur að gera upp við mig hvort þessi vettvangur á við mig. Gæti eins verið að ég vilji frekar skrifa í skúffuna heima en ef ég vil senda frá mér lesendagrein um ákveðið málefni getur verið gott að hafa aðganga að þessum einkamiðli, en þá getur náttúrulega liðið langt þar á milli og ekki víst að neinn lesandi hafi áhuga á svo stopulri útgáfu. En það er betra að mínu viti en að vera að senda frá sér stöðugt orðaflóð með rýru og tilgangslausu innihaldi.
Svo... þangað til næst! Skjáumst!
Sóli
Rausað | Breytt 5.6.2007 kl. 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)