1.10.2007 | 10:13
Spáð í stöðuna í leikhléi
Um helgina gekk ég í gegnum þau hamskipti að verða fertugur, hljóp til leikhlés eftir viðburðaríkan fyrri hálfleik og þá er að skoða málin í hálfleik - en fyrst nokkrar auglýsingar .... nei annars, sleppum þeim núna.
Mér finnst svo sem ekki neitt tiltökumál að vera orðinn fertugur, finnst ég bara hafa færst upp um deild (svo maður haldi nú fótboltalíkingunni áfram). Annras er fyndið að hugsa til þess að slík tímamót verði að stórri krísu í lífi fólks, og í raun mótsagnarkennt ef rétt reynist. Það er í raun svolítið ótrúlegt, að aldur skuli oft vera gerður að svona mikilli grýlu - að fólk skelfist það að eldast. En hvað þýðir það að eldast? Jú, að maður heldur lífi, dregur andann, vaknar að morgni og sofnar að kvöldi og um leið markar tilveru sinni þá stefnu sem maður telur heillavænlegasta fyrir sig, sína nánustu og sitt umhverfi.
Bíddu, en hvað er þá málið? Er ég að misskilja eitthvað, eða er lífið ekki það sem þessi tilvera manns snýst um? Af öllum frumhvötum okkar hlýtur lífsþráin að vera sú æðsta. Hvernig getur þá verið skelfilegt að eldast? Hvað er þá annað í boði en lífið? Jú, auðvitað dauðinn! En ekki viljum við mæta þeim gamla gaur fyrr en við komumst ekki hjá því - og það er jú þegar við erum orðin gömul, ekki satt?
Nei, auðvitað viljum við lifa, en hræðslan við að eldast er náttúrulega eftirsjáin eftir æskunni og atgerfi því sem hún býður uppá, með endalausum krafti, góðri heilsu, lífsgleði og áhyggjuleysi. En á æskuárunum er maður líka að þroskast og nokkuð laus við ábyrgð, og þá er ég kominn að kjarna málsins að mínu viti - þroska og ábyrgð. Farteskið í seinni hálfleik.
Fullorðinn maður ber ábyrgð á sjálfum sér, eigin heilsu og þroska. Ef við hlúum að þessu tvennu og lítum á lífið sem leið til að bæta sig á þessum sviðum ættum við ekki að þurfa að kvíða því að eldast. Merki aldurs sjást nefnilega yfirleitt best í hugarfari fólks.
Því ætla ég ekki að fara að taka upp á því (á fimmtugsaldri) að horfa með eftirsjá til æskuáranna og kvíða því sem framundan er. Fertugsheitið er því: Að hugsa um heilsuna og andlegan þroska, og að sjálfsögðu að spila til sigurs.
Seinni hálfleikur - hér kem ég!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.9.2007 | 18:31
Snilldar markaðssetning
Þessi auglýsing er að mínu mati dæmi um eitthvert mesta snilldarskref í markaðssetningu í sögu íslenskra auglýsinga. Þarna er notað efni sem fyrirfram var vitað að myndi fara fyrir brjóstið á kirkjunnar mönnum sem að sjálfsögðu bitu á agnið og urðu um leið, með biskup í fararbroddi, einn öflugasti hópurinn í að auglýsa upp síma af þriðju kynslóðinni. Svo má ekki gleyma okkur bloggurum sem höfum heldur betur tekið beituna líka. Þetta er náttúlega tær snilld.
Jón Gnarr og hans menn eiga heiður skilið fyrir þessa fallegu framsetningu af síðustu kvöldmáltíðinni. Mér finnst þeir nálgast viðfangsefnið af virðingu og sé ekki neitt neikvætt við þetta.
En talandi um markaðssetningu má velta fyrir sér hvað sé besta markaðssetning sögunnar. Það er kannski hlálegt í þessari umræðu en sú skoðun hefur oft verið sett fram að kristin trú og sá búningur sem hún var færð í sé dæmi um einstaklega vel heppnaða og úthugsaða markaðssetningu - þá stærstu og flottustu í mannkynssögunni.
Var kryddið sem áróðursmeistarar fornaldar notuðu þá ekki bara háð að heilagleikanum, eins og biskup vill meina að þessi auglýsing sé? Nei, auðvitað er aðeins á ferðinni mismunandi túlkun í takt við tíðaranda hvers tíma og ekki má horfa fram hjá því að sá ágæti maður, Jón Gnarr, telst vera mjög trúaður maður (þó sumir eigi erfitt með að trúa því og telji að honum sé ekki alvara með það).
En svona er trúin nú margslungið fyrirbæri :-)
Biskup segir nýja auglýsingu Símans smekklausa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.7.2007 | 14:12
Holdöpp a steikenöpp!
Skemmtilegt hvað nostalgian skýtur upp kollinum víða í bloggheimum. Fólk er að hittast á þessum vettvangi mun oftar en ella og jafnvel að skiptast á skilaboðum eftir margra ára samskiptaleysi. Systur mínar eru farnar að ,,klukka" fólk á blogginu (er ekki alveg búinn að fá botn í þann leik) og í kjölfarið að rifja upp leikina sem leiknir voru á Balanum á Stödda í gamla daga.
Einn gamall vinur og bekkjarbróðir úr barnaskóla, Svavar Hávarðsson, kom með skemmtilegt komment í gestabókina mína fyrir skömmu og fyrirsögnin no kaggo no kaggo nei" kveikti á nostalgíukubbnum um stund og hljómaði allt í einu í bland við skothvelli og brennisteinslykt af pappaskotrúllum, frasinn: ,,Holdöpp a steikenöpp! Þessi frasi var mikið notaður í kúrekaleikjum okkar félaganna og sagður með tilþrifum og hreim gömlu hetjanna í kúrekamyndunum eins og Jóns væna og fleiri góðra kappa. En aldrei pældum við í hvað þetta þýddi.
Fyrir nokkrum árum sá ég í atriði úr einni af þessum sígildu myndum þar sem aðalsöguhetjan dró Coltinn úr slíðrinu og öskraði: Stick' em up! og lét svo fylgja; ... an hold'em up! Og þvílík opinberun! Eftir að hafa fetað brautina í enskukennslu hins íslenska menntkerfis, varð mér allt í einu ljós, háskólamenntuðum manninum, merking og uppruni hins ógnandi frasa úr byssuleikjum barnæskunnar: Holdöpp a steikenöpp!
Lengi lærir sem lifir
Nostalgia | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.7.2007 | 20:33
Þvílíkt framfaraspor ef satt er!
Þrír félagar telja sig hafa leyst gróðurhúsavandann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.7.2007 | 09:39
Fóstureyðingar - morð eða miskunnarverk?
Í kjölfar umræðunnar um fóstureyðingar um daginn vil ég benda á þráð þar sem tekist er á um þetta efni. Þar koma fram öfgasjónarmið úr áttum trúleysingja og trúmanna, auk annarra kommenta. Ég held að það sé mjög hollt að stilla sér upp við vegg og skoða þetta fordómalaust. Hvet ykkur til að gefa ykkur tíma og kíkja á þetta:
http://ragnareyra.blog.is/blog/ragnareyra/entry/255217/
Ég vil ekki vera að setjast í dómarasæti gagnvart þeim sem hafa tekið þessa afdrifaríku ákvörðun en þegar maður hefur staðið í því að vera að reyna eftir tæknilegum leiðum að kveikja líf er ennþá erfiðara að finna réttlætingu á þessum verknaði. Hins vegar hef ég lengi verið andstæðingur fóstureyðinga í hjarta mínu og hefur það ekkert með trúmál að gera heldur eigið hyggjuvit.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.7.2007 kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.7.2007 | 08:45
Brautryðjandinn Guðjón Þórðarson
Þvilíkur maður hann Guðjón! Svona menn gleymast seint í sögunni og uppskera að sjálfsögðu eins og sáð er til. Hann er einn af þessum eldheitu brautryðjendum í bransanum og hefur nú bætt enn einni skrautfjöðurinni í hattinn sinn, og leitt knattspyrnuna inn á óvæntar brautir með nýrri óskráðri siðareglu: ,,Foul play". Þetta tekur náttúrulega af öll tvímæli um að þarna er einstæður maður á ferð. Og skilaboðin sem hann gefur í hinum nýja boðskap: Sigur hvað sem það kostar án tillits til eigin æru, sonar eða félags.
Svo dirfist fólk til að halda því fram að fótboltinn sé brútal.
Bjarni þurfti lögreglufylgd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sprikl og spark | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.6.2007 | 14:22
Konur eru ,,drengir góðir"
Þó kvennabaráttan haf skilað sínu þá hallar enn á konur á ýmsum sviðum þjóðfélagsins, lág laun í hinum svo kölluðu ,,kvennastéttum" og allt of lágt hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum. Henni Jóhönnu gengur sjálfsagt gott eitt til og hefur margt til síns máls en kynjakvóti - guð minn almáttugur - vona að hún sé nú bara að kasta þessu fram í hálfkæringi aðeins til að vekja athygli á þessu misræmi og skapa umræðu.
Sem hallur undir feminisma vil ég konum allt hið besta og veg þeirra sem bestan, en ef á að fara að troða þeim að í hinar og þessar stöður á grundvelli kynferðis, er fyrst og fremst verið að gefa þau skilaboð að þær séu ekki jafn hæfar og karlar til að gegna slíkum stöðum, en eigi SAMT að hafa jafnan rétt til þeirra. Mér finnst þessi umræða um kynjakvóta því ekki gera annað en lítilsvirða konur. Er næsta krafa að sérmerkja bílastæði fyrir konur um borg og bý með bleikum lit? Hefur einhver spáð í af hverju konur og fatlaðir deila oft sama salerni í opinberum byggingum?
Auðvitað þarf að fá fleiri konur til þátttöku í ýmsum sviðum þjóðfélagsins en ekki með þessum hætti. Leyfum konum að komast áfram á eigin verðleikum. Það sem þarf er hugarfarsbreyting í þjóðfélaginu og ekki síst hjá konunum sjálfum, efla trú þeirra á eigin getu og verðleika svo hugur þeirra stefni hærra en hann gerir í dag. Þetta kemur að sjálfsögðu beint inn á uppeldismálin og tekur því langan tíma, en á meðan ekkert er gert á þeim bænum í þessum málum en stöðugt einblínt á sértækar stjórnvaldsaðgerðir, held ég að lítið þokist ef þá nokkuð, í átt til jafnréttis.
Ég held að feministar þurfi að fara að endurskoða um hvað jafnréttisbarátta snýst í dag og fara að horfa inn á við. Hverjir bera ábyrgð á að kynin sitja oftar en ekki við sama borð þegar kemur að launamálum? Karlarnir? Ja, ekki samkvæmt könnunum undanfarið. Og konur! Hættiði svo í guðanna bænum að aðgreina ykkur frá körlum í starfsheitum. Alþingiskona?!?! Var ekki horfið frá þessu þegar orðunum ,,skúringakona" og ,,hjúkrunarkona" var útrýmt úr íslensku máli? Munum að konur eru líka menn. Lítum til fornsagnanna þar sem kona gat líka verið ,,drengur góður".
Félagsmálaráðherra útilokar ekki kynjakvóta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 27.6.2007 kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.6.2007 | 07:58
Mikið um að hugsa - lítið að skrifa!
Jæja, loksins sest Sólinn niður við skriftir, þó ekki eigi að vera langur pistill í þetta sinnið. Lítið verið í stuði til að skrifa upp á síðkastið. Dreif mig á hjólið í morgun kl. 6 og hjólaði ,,Sólahringinn", sem er 14 km hringur kringum hluta Reykjanesbæjar. Var mættur snemma í vinnuna og góður tími í að spá í eigið blogg og annarra.
Eftir að hafa fylgt henni Lóu minni síðasta spölinn í vikunni sem leið hefur hugurinn mikið snúist í kringum lífið og tilgang þess. Ekki það að ég finni til tilgangsleysis heldur um viðhorf manns til lífsins og þeirra hluta sem taldir eru sjálfsagðir í nútíma samfélagi, þ.e. góð ævi, góð líkamleg heilsa, góð geðheilsa, góð fjölskylda, góð og heilbrigð börn, góðir vinir, góð afkoma, góð vinna, góð eftirlaun, góður sumarbústaður, góður húsbíll, gott hjólhýsi, gott fellihýsi, góð tjaldkerra, góður bíll, gott hús, góð lýsing, góð upphitun, góð baðaðstaða, gott eldhús, gott sjónvarp, góð tölva, góð nettenging, góður sími, góður farsími, góður matur, gott vín, góð tónlist, góðir vegir, góð birta, góður hiti, góðir nágrannar, gott útigrill, góður heitur pottur, góður gashitari, gott félagslíf... og svo mætti eflaust lengi telja.
Málið er bara að vinsa úr öllu því góða sem nútíma samfélag hefur upp á að bjóða og velja úr það skiptir mestu máli. Að líta á allt þetta sem sjálfsagðan hlut ber vott um hroka og græðgi - eitthvað það lúmskasta sem læðist að okkur á síðustu og bestu tímum. Verum þakklát með það sem við höfum. Njótum þess að hafa það gott í samfélagi allsnægta en munum í leiðinni að setja það í forgang sem skiptir máli..... og ég þarf ekki að predika hvað það er .... eða er það?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2007 | 20:19
Minning
Hún Lóa er dáin eftir áralanga hetjulega baráttu við krabbamein. Guð blessi minningu þessarar hugdjörfu og hæfileikaríku stúlku, sem sýndi okkur svo ótrúlegt sálarþrek og bjartsýni fram til síðasta dags og sem við sem höfum heimsótt hana á blómarósarsíðuna hennar, fengum að eiga hlutdeild í. Það var mikil mildi að hún fékk að líta heimaslóðirnar sínar áður en hún kvaddi en hún var nýkominn til Reykjavíkur eftir helgarferð vestur í Dýrafjörðinn með fjölskyldu sinni.
Allar mínar bænir fel ég henni og Höllu, Sæma og Salvöru. Guð blessi ykkur öll og veiti ykkur styrk.
Vinir og fjölskylda | Breytt 5.6.2007 kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.5.2007 | 13:58
Blogg - til hvers?
Ég hef lítið haft mig í frammi við að færa inn í bloggið, enda svo sem ekki ætlunin að kæfa allt í orðaflóði (eins og ég get átt ansi auðvelt með). En þessi síða er nú eiginlega könnun á þessu fyrirbæri og hvort þetta er eitthvað fyrir mig. Mér finnst einhvern veginn ég hafa mjög sjaldan þörf til að skrifa hér inn og hef verið að velta fyrir mér hverju það sætir. Líklegasta skýringin er sú að ég finni mig ekki almennilega í þessu umhverfi og ætla ég að leyfa henni að vera ofaná í þetta skiptið.
Í þessu samhengi knýja nokkrar spurningar á:
Hvað er þetta blogg eiginlega? Til hvers er maður að blogga? Hvað er það sem fær fólk til þess? Hvenær er fólk að blogga, í vinnunni eða heima? Er bloggið gott eða slæmt? Hvernig kemur það til með að þróast?
Ég ætla ekki að leitast við að svara þessu, en kannski koma einhver svör frá þeim sem villast hérna inn og skilja eftir athugasemd. Ég held að ef ég á að halda áfram í þessu af heilindum þurfi það að vera í kringum eitthvað annað en svona raus um fréttir og málefni líðandi stundar. Ég sé einhvern veginn ekki tilganginn í því og hreinlega nenni því varla.
Mér finnst þetta fyrirbæri vera á stundum hálf tilgangslítið, nenni t.d. ekki að lesa um hvernig einhver burstaði tennurnar og hvað hann fékk sér í morgunmat o.s.frv. Margir sem fara hamförum í blogginu (og á ég þá ekki við þá sem eru með hversdaginn sem punkt í mynda- og tenglasíðum) eru að mínum dómi að svala athyglisþörf sinni og er það vel - en ég held að ég hafi ekki nógu mikið af henni til að fara inn á slíkar brautir (eins og ætlunin var með ,,rausinu"). Svo er lík svo margt í boði að það er ekki gerlegt að reyna að kemba yfir og lesa allt sem maður hefði áhúga á - þá færi nú tíminn fyrir lítið.
Hins vegar finnst gefandi að lesa pælingar sumra sem hafa eitthvað fram að færa og nefni ég þar blómarósina hana Lóu, sem er í tenglalistanum hér fyrir neðan, sem sýnir okkur svo um munar inn í reynsluheim ungrar og efnilegrar manneskju sem rær lífróður í baráttunni við krabbamein. Ég skora á ykkur að gefa ykkur tíma og kíkja á síðuna hennar, telja svo upp í huganum nokkur stærstu meinin í ykkar lífi - og bera saman við hennar.
Svo er gaman að kíkja í heimsókn á síður ættingja og vina og sjá hvað þeir eru að brasa, t.d. myndasíðuna hjá Sigurjóni bróður og svo var ansi skemmtileg lesning fyrir gamla Stöddara á síðunni hennar Þóru Bjarkar um togarann sem siglt var í strand inni á Öldu.
Þá er ég kominn að því sem mér finnst sniðugast við bloggið, en það er að það TENGIR FÓLK. Ég er t.d. að átta mig á því að á nokkrum vikum hef ég átt samskipti við fullt af fólki sem ég hef ekki frétt af í mörg ár, allt vegna þess að ég er með þessa síðu. Mér finnst svo margir möguleikar opnast með einni svona vefgátt, t.d. að fermingar- og útskriftarárgangar eigi samskipti á slíkri síðu, heilu ættarmótin geta farið fram á þessum vettvangi og þar fram eftir götunum. Sem dæmi um möguleika þá datt mér í hug um daginn að búa til afmæliskort handa minni eiginkonu minni heittelskaðri, sem átti því láni að fagna að ná 40 ára markinu þann 27. apríl sl. Þá var hún stödd í París með móður sinni og systur en ég grasekkillinn, fór inn á póstinn hennar og sendi öllum í tenglalstanum hennar slóðina og lykilorðið á ,,afmæliskortið" sem er bloggsíða eins og þessi - http://hafdisl.blog.is Kíkið endilega á og sjáið afraksturinn. Þetta fékk hún að skoða þegar hún kom heim frá París. Og sem dæmi um hvað þetta virkar að þá var gömul skólasystir hennar flugfreyja í vélinni á heimleiðinni og hún vissi allt um afmælið og ferðina - og Hafdís skildi ekki neitt í neinu.
Þessir möguleikar eru að mínu mati óþrjótandi og flögra í allar áttir með hugmyndafluginu. Þess vegna er erfitt að snúa til baka þegar maður er búinn að hleypa svona bloggtilraun af stokkunum. Því lýsi ég bloggtilrauninni minni formlega lokið en hugsa að ég breyti úr rausi í eitthvað annað - þegar ég nenni að gefa mér tíma í það (matartíminn í vinnunni búinn og best að fara að nýta tímann í eitthvað af viti).
Góðar stundir kæru samferðamenn og ,,skjáumst" í bloggheimum.
Rausað | Breytt 5.6.2007 kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)