25.5.2007 | 15:43
Kynjakvóti og kynbundið launamisrétti - úrelt baráttumál!?!
Bæði borgarstjórinn og makinn hafa skipt um kyn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.6.2007 kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.5.2007 | 11:44
Sáðmennirnir og fræin
Það er svolítið mikið klént að talsmaður apans í hvíta húsinu tali um að dregið hafi úr trúverðugleika Carters. Ég held að það sé óhætt að segja að ef einhver fyrrverandi forseti Bandaríkjanna njóti trúnaðar og trausts sé það einmitt þessi aldni heiðursmaður. Ég held að fæstir neiti því að Bússarinn hafi úr ansi litlu að spila í þeim efnum.
Ef við lítum til þeirra tveggja sem sáðmanna þá er óhætt að segja að innihald fræpokanna þeirra hafi verið harla ólíkt og uppskeran akranan þeirra eftir því. Þegar litið verður til verka forseta Bandaríkjanna í framtíðinni á seinni hluta 20. aldar og fyrri hluta þeirrar 21., verða þessir tveir mjög líklega teknir sem dæmi - Carter sem boðberi friðar og húmanisma en Bush sem boðberi stríðs og hörmunga.
Hvíta Húsið: Carter skiptir ekki lengur máli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.6.2007 kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.5.2007 | 10:15
Er ,,beinatískan
Ímyndarsköpun hefur mikið verið í umræðunni undanfarin misseri og þá einkum í tengslum við opnari umræðu um geðsjúkdóminn Anorexíu. Heilbrigði hefur allt of lengi verið einskorðað við algjöran niðurskurð á fitu, þar sem búnir hafa verið til einhverjir staðlar sem nánast óhugsandi er fyrir venjulegt fólk að falla inn í - svipað og þegar stjúpsystur Þyrnirósar voru að reyna að komast í skóinn hennar.
Auglýsing af stúlku sem horfir raunamædd á sjálfa sig í speglinum er eitt það magnaðasta tæki í þessari baráttu sem ég hef séð lengi og er það von mín að barátta þessara samtaka verði æ fleirum sem hættu eiga á að lenda í klóm átröskunar, til lífs og gæfu.
En það sem ég ætlaði að leggja inn hér í þessu samhengi, er innslag um þáttinn ,,America's next top model", sem ég sá í imbanum í gærkvöld. Þar var verið að fremja lokagrisjun í þáttinn, þ.e. þær líklegustu af öllum þeim fjölda sem sótti um. Og viti menn - í lokahópinn komust tvær stúlkur sem eru vel fyrir utan þá staðla sem gilt hafa í þessum heimi ímyndarsköpunar fram að þessu; háar vel vaxnar stúlkur, sem samvara sér vel. En sem dæmi um hvernig búið er að festa þessa mjónu-ímynd í sessi, þá skilgreindu þær sig sem stúlkur í yfirstærð, ,,supersized eða oversized" (man ekki hvaða orð þær notuðu).
Sumum finnst þetta kannski ekki merkilegt, gefa lítið fyrir fegurðarsamkeppnir sem þessar og get ég í sjálfu sér tekið undir það. Hitt er annað mál að þessi iðnaður hefur áhrif á milljónir stúlkna á viðkvæmum aldri, um heim allan og að ekki sé talað um hugmyndir drengja um hvernig konum þeir ,,eigi" að laðast að. Því er það mikið gleðiefni ef þarna væri á ferðinni raunveruleg viðhorfsbreyting í átt frá beinatískunni. Ég vona svo sannarlega að svo sé.
Lífstíll | Breytt 5.6.2007 kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.5.2007 | 14:20
Fótboltinn og frægðin
Ég var ekki hár í loftinu þegar fótboltinn heltók hugann og heilu dögunum eytt á ,,Balanum" sem er tún í miðju þorpsins á Stöðvarfirði (Kirkjubólsþorps). Ég man hvað ég var stoltur af Arsenaltreyjunni og stuttbuxunum sem mamma saumaði við hana, Puma goal- fótboltaskónum og Arsenal legghlífunum sem Jói á Borg vélaði einhvern veginn af mér í fáránlegum vöruskiptum. Bjarni Fel sýndi vikugamlar upptökur úr enska boltanum, í kvöldmatartímanum á laugardögum, og maður fékk undanþágu frá setu við matarborðið og mataðist með augun límd við svarthvítan skjáinn - vissi hvað hver einasti maður hét sem var inni á vellinum (fyrir utan línuverðina...). Svo kom litasjónvarpið og ég fór í heimsókn til Mörtu Vilbergs í kjallaranum á Sindrabergi til að sjá Arsenal keppa, en varð fyrir þvílíkum vonbrigðum því þeir voru í VARABÚNINGUNUM (sem mér fannst ekkert flottir, þó þeir væru alveg eins og ,,Súlubúningarnir"). En þrátt fyrir miklar og stífar æfingar varð lítið úr hinum stórum draumum um að keppa í ensku 1. deildinni (úrvals í dag) við hlið Frank Stapletons, Liam Brady og fleiri góðra kappa í fallbyssuliðinu. Heldur var venjan að sitja á grýttum varamannabekknum í klöppinn við malarvöllinn heima þegar keppt var í mínum aldursflokk.
Svo rankar maður við sér um 30 árum síðar þegar maður fréttir það síðastur manna að aðalhetjan í boltanum í gamla daga, Alan Ball (eða Alli bolti ef krafa væri um algjöra íslenskun hér), var víst að gefa upp öndina og stendur jarðarförin víst yfir þegar þetta er ritað. Ekki verið að fylgjast eins vel með þessum málum á upplýsingaöld og í æsku, þegar Tíminn og Sjónvarpið voru einu miðlarnir um þetta efni. Það er mikið vatn runnið til sjávar á þessum tíma og hefur fótboltaáhugi Somma litla Sunnuhvoli skolast að mestu leyti með því til hafs í leiðinni. Í það minnsta finnst mér það mesta tímaeyðsla að horfa á heilan fótboltaleik og hef ekki gert það í mörg herrans ár. En ekki hefði kall þó neitt á móti því að fara utan og horfa á einn slíkan leik - en það segir víst lítið um áhugann á efninu annað en að eiginkonan segist m.a.s. vera til í slíka ferð - og er fótbolti sennilega neðst á lista hennar yfir áhugamál.
Áfram Arsenal! (hvað heita leikmennirnir þar núna ...... jú þessi franski .... ahhhh man það ekki...).
Sprikl og spark | Breytt 5.6.2007 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.4.2007 | 11:56
Hvað eru prestar að pæla?
Alveg er ég að fá mig fullsaddan af helgislepjunni í blessuðum prestum landsins. Í einhverri skrípaleiks-atkvæðagreiðslu á einhverri prestastefnu ákveða þeir að samkynhneigðir megi ekki bindast bandi ástar og virðingar fyrir augliti guðs. Ekki það að þetta komi manni neitt á óvart miðað við stefnu biskups og kirkjunnar í málum samkynhneigðra. En þó að kirkjan hafi kennt mér siðaboðskap Krists (hversu hlálegt sem það hljómar í þessari umræðu) og ég reyni að fylgja honum mér og öðrum til heilla, eru takmörk fyrir hvað æðruleysið hjá manni endist gagnvart þessum herrum sem hreykja sér svo hátt. Þolinmæði mín er sem sagt á þrotum.
Hvað hefur þessi hópur embættismanna ríkisins sem á fyrst og fremst að gegna þjónustuhlutverki við almenning, með þessi mál að gera. Ef þeir geta fellt svona úrskurð á sinni prestastefnu geta þá skólastjórar ákveðið á landsþingi skólastjóra að örvhentir fái ekki fullgild réttindi við lok grunn-, framhalds- eða háskóla? Þá fengju þessir öfuguggar (þ.e. þeir sem skrifa með öfugum ugga) klapp á kollinn við útskrift en í því fælist að þeir hefðu ekki sömu réttindi á við þá rétthentu þegar þeir sæktu um starf sem þeir hefðu mennun til.
Mér sýnist kirkjan ekki eiga neitt annað skilið í þessum efnum en að þessi löggjörningur, þ.e. hjónavígslan, verði tekinn af þeim og látinn í hendur ábyrgari aðila, sem vinna út frá grunnmannréttindum fólks.
Best að enda þessa gremjulosun með vísu sem ég hnoðaði saman áðan af gefnu tilefni:
Hvað eru prestar að pæla?
með perrisma' og biblíustæla,
og kaleik sem kannski er leigður,
ef Kristur var samkynhneigður.
Með guðsblessun...
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.6.2007 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.4.2007 | 07:01
Bíddu.... hvaða ár er í Noregi?
Konunum sjálfum að kenna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 5.6.2007 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.4.2007 | 11:43
Hvað á ég að kjósa?
Þessi spurning er það helsta sem kemur í hugann þegar hann er leiddur að kosningum til hins háa Alþingis sem framundan eru. Mér finnst lítið fara fyrir eiginlegri kosningabaráttu - jú það er að sjálfsögðu umræða í fjölmiðlum, bæklingar eru farnir að kíkja glottandi inn um bréfalúguna en ósköp lítill titringur mælist á kosningaskjálftamælum. Það er eins og menn séu að reyna að vera ósammála um hina og þessa hluti, þrasandi um umhverfismál og stóriðju, líkt og sá málaflokkur hafi verið valinn sem það skásta til að hala inn einhver atkvæði á. Stjórnarandstöðuflokkarnir stefna að sjálfsögðu að því að fella stjórnina en Sjalla stóri bróður virðist vera nokk sama í vissu sinni um að vera treyst fyrir brúarsetu í þjóðarskútunni næstu fjögur árin.
Ég ætla nú ekki að hætta mér út á hálan ís pólitíkurinnar en er bara að velta þessu fyrir mér og reyna að átta mig á hvort mér tekst að ákveða í tæka tíð hverjum ég á að treysta fyrir atkvæði mínu. Mér finnst ástandið í dag einkennast af doða - þjóðin er eins og kýr sem hefur étið yfir sig af fóðurbæti og horfir sljóum augum yfir völlinn og veit ekki hvort hún á að standa, liggja, skíta eða halda áfram að éta. Blessaður bóndinn stendur álengdar og klórar sér í hausnum - reynir að finna út hvernig hann á að borga blessaðan fóðurbætinn, því hækkandi styrkirnir hverfa í afborganir af hátæknifjósinu og öllu hinu.
En hvað um það. Best að fylgjast með umræðunni næstu daga með opnum huga og kannski sér maður ljósið í tæka tíð. Nú, ef ekki þá er bara að loka augunum í kjörklefanum og ....
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.6.2007 kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2007 | 11:37
Rausað án ábyrgðar - eða hvað?
Eitthvað er lítið að gerast hjá mínum manni í bloggheimum og því er þetta raus mitt því ennþá skilgreint af minni hálfu sem bloggtilraun. Ég er ekki alveg viss um áhuga minn og löngun til að vera að útvarpa rausi mínu á Netinu, en ætla þó ekki að dæma mig úr leik strax á þessum vettvangi - gefa þessu smá séns.
Ég hef verið að velta þessu fyrirbæri ,,bloggi" fyrir mér upp á síðkastið og er ennþá að mynda mér skoðun á því. Þetta er að sjálfsögðu kjörinn vettvangur fyrir þá sem hafa eitthvað að segja og vilja koma því frá sér, skapa umræður um sín hjartans mál - láta rödd sína heyrast (þó í óeiginlegri merkingu sé). Svo er það vafraranna sjálfra að meta hvað er gott og hvað ekki. En þar sem þetta er tiltölulega ungur vettvangur þá er spurning hvaða reglur gilda um það sem sagt er, hvort þær eru yfirleitt til og hvort ekki sé ástæða til að setja slíkar - líkt og siðareglur blaðamanna. Kannski þessi menningarkimi setji sér sjálfur óskráðar reglur í þessum efnum þegar fram líða stundir - hver veit.
Það má segja að hvert og eitt blogg sé í raun einkafréttastofa þess sem þar skrifar. Og því vekur þetta spurningu um ábyrgð ,,fréttastjórans" á því sem hann lætur frá sér fara. Mér finnst t.d. athugasemdir við greinar oft vera á dökkgráu svæði, þegar orð eins og ,,asni" og ,,hálfviti" eru viðhöfð um menn sem fjallað er um. Fyrst að tekið er mark á gróusögum bloggara t.d. um meinta leynifundi fundi stjórnmálaforingja er greinilegt að þessi vettvangur er farinn að vega nokkuð þungt í þjóðfélagsumræðunni. Þess vegna held ég að þeir sem hamra í sífellu inn á bloggið sitt verði að sjá sóma sinn í því að gæta tillitsemi við náungann (og sjálfan sig í leiðinni) og vanda til verka við þessa útgáfu sína á veraldarvefnum.
En eins og sagði hér í upphafi þá er ég sjálfur að gera upp við mig hvort þessi vettvangur á við mig. Gæti eins verið að ég vilji frekar skrifa í skúffuna heima en ef ég vil senda frá mér lesendagrein um ákveðið málefni getur verið gott að hafa aðganga að þessum einkamiðli, en þá getur náttúrulega liðið langt þar á milli og ekki víst að neinn lesandi hafi áhuga á svo stopulri útgáfu. En það er betra að mínu viti en að vera að senda frá sér stöðugt orðaflóð með rýru og tilgangslausu innihaldi.
Svo... þangað til næst! Skjáumst!
Sóli
Rausað | Breytt 5.6.2007 kl. 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.3.2007 | 13:14
Hvað þarf til?
Er þetta ekki týpískt fyrir aga- og virðingaleysið í þessu blessaða þjóðfélagi okkar. Það er eins og menn séu að missa það gjörsamlega í þessari dauðadýrkun (dýrkun á dauðum hlutum og daðri við dauðann). Hversu langt á þessi dans í kringum gullkálfinn að ganga? Auglýsi hér með eftir einum ,,umferðar-Móse" til að öskra á lýðinn og koma vitinu fyrir hann.
Það er enginn nýr sannleikur að hraðakstur sem þessi er stundaður af lítt þroskuðum einstaklingum sem gera sér enga grein fyrir hverjar afleiðingar hegðunar þeirra gætu orðið - og liggur manni við að segja skítt með þá sjálfa - en þó þeir séu svo ,,heppnir" að kála aðeins sjálfum sér við þessa iðju þá gera þeir sér heldur ekki grein hvaða áhrif það hefði í fjölskyldu þeirra og vinahópi.
En hvað þarf til að stoppa þessa menn (ef þeir fljúga ekki sjálfir út í hraunið)? Ef maður gengi um götur með byssu dritandi út í loftið (sem hann hefði fullt leyfi fyrir, þ.e. byssunni) væri þá bara byssan tekin af honum með smá áminningu auk nokkurra þúsundkalla í sekt?
Þetta eru náttúruleg hegningarlagabrot og ekkert annað og á að meðhöndla sem slík, enda sífellt meiri vilji til þess hjá yfirvaldinu - og vonandi fá þeir betri vopn í hendurnar við baráttuna gegn þessu liði en þeir hafa haft hingað til.
Myndir af mótorhjóli á ofsahraða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umferðarmál | Breytt 5.6.2007 kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.3.2007 | 14:42
Er það málið?
Eins og ég er sammála því að þurfi að taka umferðarmálin föstum tökum þá get ég ekki annað en verið ósammála þessari fullyrðingu sem fyrirsögnin felur í sér. Þó ég vilji síður en svo vera að setja mig á hærri hest en Sigurður og hans ágætu samstarfsmenn, þá held ég að þeim sjáist yfir mjög veigamikið atriði í þessum efnum. Að sjálfsögðu hefur aukin löggæsla áhrif og áróður getur skilað einhverju, en það eina sem ég held að virki almennilega gegn umferðarbrotum, svo ekki sé talað um ölvunarkstur, séu hertari viðurlög.
Hvaða skilaboð erum við að gefa ökumönnum sem breyta ökutækjum sínum í brynvarðar drápsvélar, með ölvunar- og/eða hraðakstri, þegar sektirnar eru ökuleyfissvifting í nokkra mánuði og smásektir? Engin önnur en þau að þetta sé eiginlega bara allt í lagi og skipti ekki svo miklu máli þó viðkomandi geri þetta aftur og aftur.
Ég held að í okkar efnishyggjusamfélagi nútímans fari menn ekki að hugsa fyrr en brotin koma við pyngjuna, því miður. Ég held að menn hlusti frekar á hvernig klingir í pyngjunni en viðvaranir í auglýsingum. Myndu menn ekki hugsa sig tvisvar um áður en þeir settust drukknir undir stýri, ef viðurlög við ölvunarakstri væru ævilangt ökubann og sekt sem væri ígildi nokkurra mánaðarlauna venjulegs launamanns, jafnvel að viðbættri samfélagsþjónustu? Myndi maður ekki hafa augun betur á hraðamælinum ef maður ætti von á himinhárri sekt sem setti strik í næstu mánaðaruppgjör heimilisins? Ég spyr!
Aukin löggæsla samhliða markvissum áróðri besta leiðin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umferðarmál | Breytt 5.6.2007 kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)