3.5.2007 | 14:20
Fótboltinn og frægðin
Ég var ekki hár í loftinu þegar fótboltinn heltók hugann og heilu dögunum eytt á ,,Balanum" sem er tún í miðju þorpsins á Stöðvarfirði (Kirkjubólsþorps). Ég man hvað ég var stoltur af Arsenaltreyjunni og stuttbuxunum sem mamma saumaði við hana, Puma goal- fótboltaskónum og Arsenal legghlífunum sem Jói á Borg vélaði einhvern veginn af mér í fáránlegum vöruskiptum. Bjarni Fel sýndi vikugamlar upptökur úr enska boltanum, í kvöldmatartímanum á laugardögum, og maður fékk undanþágu frá setu við matarborðið og mataðist með augun límd við svarthvítan skjáinn - vissi hvað hver einasti maður hét sem var inni á vellinum (fyrir utan línuverðina...). Svo kom litasjónvarpið og ég fór í heimsókn til Mörtu Vilbergs í kjallaranum á Sindrabergi til að sjá Arsenal keppa, en varð fyrir þvílíkum vonbrigðum því þeir voru í VARABÚNINGUNUM (sem mér fannst ekkert flottir, þó þeir væru alveg eins og ,,Súlubúningarnir"). En þrátt fyrir miklar og stífar æfingar varð lítið úr hinum stórum draumum um að keppa í ensku 1. deildinni (úrvals í dag) við hlið Frank Stapletons, Liam Brady og fleiri góðra kappa í fallbyssuliðinu. Heldur var venjan að sitja á grýttum varamannabekknum í klöppinn við malarvöllinn heima þegar keppt var í mínum aldursflokk.
Svo rankar maður við sér um 30 árum síðar þegar maður fréttir það síðastur manna að aðalhetjan í boltanum í gamla daga, Alan Ball (eða Alli bolti ef krafa væri um algjöra íslenskun hér), var víst að gefa upp öndina og stendur jarðarförin víst yfir þegar þetta er ritað. Ekki verið að fylgjast eins vel með þessum málum á upplýsingaöld og í æsku, þegar Tíminn og Sjónvarpið voru einu miðlarnir um þetta efni. Það er mikið vatn runnið til sjávar á þessum tíma og hefur fótboltaáhugi Somma litla Sunnuhvoli skolast að mestu leyti með því til hafs í leiðinni. Í það minnsta finnst mér það mesta tímaeyðsla að horfa á heilan fótboltaleik og hef ekki gert það í mörg herrans ár. En ekki hefði kall þó neitt á móti því að fara utan og horfa á einn slíkan leik - en það segir víst lítið um áhugann á efninu annað en að eiginkonan segist m.a.s. vera til í slíka ferð - og er fótbolti sennilega neðst á lista hennar yfir áhugamál.
Áfram Arsenal! (hvað heita leikmennirnir þar núna ...... jú þessi franski .... ahhhh man það ekki...).
Meginflokkur: Sprikl og spark | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 5.6.2007 kl. 14:51 | Facebook
Athugasemdir
Blessaður félagi, kannski getur þú tekið upp gamla takta á Balanum næst þegar þú kemur, heyrst hefur nefninlega að það verði gerður þar gerfigrasvöllur. Það er af sem áður var þegar við vorum ung og saklaus með mölina í skónum. Sjáumst.
PS. Hvað er málið með stærðfræðina?
Bogga Jóna (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 18:31
Það þarf að fara að taka þig í uppfræðslu Sólmundur, þetta gengur ekki.
Karl Jónsson, 4.5.2007 kl. 09:38
Sæl Boggan mín og takk fyrir kvittið.
Hvað? Gervigras á Balanum? Nú er tími til kominn að stofna Balasamtökin (vera bara með betri tímasetningu en Björgvin Valur þegar hann stofnaði samtökin ,,Björgum Hólsskerinu" nokkrum árum eftir að nýja höfnin var gerð). Gervigrasvöllurinn hlýtur að eiga að vera nær skólanum. Jæja, en nóg um það.
Stærðfræðin segirðu. Ég er víst glaðari að reikna hærri tölur þegar kemur að árafjöld, en sumir (nefni engin nöfn ) og biðst forláts Bogga mín að uppljóstra þessu með árin. Vona bara að sem fæstir villist hingað inn...hehe.
Sólmundur Friðriksson, 4.5.2007 kl. 09:47
Já, Kalli minn. En Arsenal er samt ennþá málið. Ekki hafa neinar áhyggjur. Held samt að það þurfi að taka mig í uppherslu þ.e. ef ég á að fara að taka upp gamla takta á ,,Balanum" eins og hún Bogga fermingarsystir mín leggur til.
Sólmundur Friðriksson, 4.5.2007 kl. 09:49
Jarðarförin Boltans hans Allans tókst vel. Hann skoraði a.m.k. þrisvar og bjöllur dómkirkjurnar í Winchester tóku sig vel út í fagnaðarlátunum.
Unnar Rafn Ingvarsson, 4.5.2007 kl. 21:58
Sommi þó! Mættir ekki í Stöðfirðingakaffið á laugardaginn var! Þar hefðum við getað tekið þetta fína spjall um fótboltann á Balanum og skipst á skemmtilegum lygasögum um eigið ágæti í boltanum hér í denn :-) Ég, sem tek alltaf fram Adidas Uwe skóna mína einu sinni á ári og pússa þá af nærgætni og væntumþykju. Minnist í leiðinni allra skemmtilegu stundanna á Balanum og allra veiðiferðanna þegar við þurftum að fiska boltann úr sjónum eftir góða hreinsun í vörninni :-)
Bestu kveðjur frá varnarjaxlinum úr Heiðmörk (man ekki alveg hvaða klettur ég var...Látrabjarg, Heimaklettur...ég veit að þú manst þetta allt!)
Halla Kjartans (IP-tala skráð) 7.5.2007 kl. 11:48
Halla mín. Sorrí en ég komst ekki í kaffið vegna mikilla anna í rokkinu og félagslífinu. Stundum er maður bara yfirbókaður. Já, það verður gaman að hittast næst og rifja upp allt þetta havarí á Balanum. Ef mig misminnir ekki rétt þá var Kristjana Látrabjarg og Ásdís Heimaklettur en eitthvað hefur förlast mitt minni með nafnið sem þú hlaust en það hlýtur að poppa upp einn daginn. Sennilega hefur mesta orkan hjá mér farið í þessar nafngiftir og kannski komin skýringin á því að ég náði ekki að einbeita mér að fótboltaferlinum sem skyldi.
Sólmundur Friðriksson, 7.5.2007 kl. 21:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.