1.10.2007 | 10:13
Spáð í stöðuna í leikhléi
Um helgina gekk ég í gegnum þau hamskipti að verða fertugur, hljóp til leikhlés eftir viðburðaríkan fyrri hálfleik og þá er að skoða málin í hálfleik - en fyrst nokkrar auglýsingar .... nei annars, sleppum þeim núna.
Mér finnst svo sem ekki neitt tiltökumál að vera orðinn fertugur, finnst ég bara hafa færst upp um deild (svo maður haldi nú fótboltalíkingunni áfram). Annras er fyndið að hugsa til þess að slík tímamót verði að stórri krísu í lífi fólks, og í raun mótsagnarkennt ef rétt reynist. Það er í raun svolítið ótrúlegt, að aldur skuli oft vera gerður að svona mikilli grýlu - að fólk skelfist það að eldast. En hvað þýðir það að eldast? Jú, að maður heldur lífi, dregur andann, vaknar að morgni og sofnar að kvöldi og um leið markar tilveru sinni þá stefnu sem maður telur heillavænlegasta fyrir sig, sína nánustu og sitt umhverfi.
Bíddu, en hvað er þá málið? Er ég að misskilja eitthvað, eða er lífið ekki það sem þessi tilvera manns snýst um? Af öllum frumhvötum okkar hlýtur lífsþráin að vera sú æðsta. Hvernig getur þá verið skelfilegt að eldast? Hvað er þá annað í boði en lífið? Jú, auðvitað dauðinn! En ekki viljum við mæta þeim gamla gaur fyrr en við komumst ekki hjá því - og það er jú þegar við erum orðin gömul, ekki satt?
Nei, auðvitað viljum við lifa, en hræðslan við að eldast er náttúrulega eftirsjáin eftir æskunni og atgerfi því sem hún býður uppá, með endalausum krafti, góðri heilsu, lífsgleði og áhyggjuleysi. En á æskuárunum er maður líka að þroskast og nokkuð laus við ábyrgð, og þá er ég kominn að kjarna málsins að mínu viti - þroska og ábyrgð. Farteskið í seinni hálfleik.
Fullorðinn maður ber ábyrgð á sjálfum sér, eigin heilsu og þroska. Ef við hlúum að þessu tvennu og lítum á lífið sem leið til að bæta sig á þessum sviðum ættum við ekki að þurfa að kvíða því að eldast. Merki aldurs sjást nefnilega yfirleitt best í hugarfari fólks.
Því ætla ég ekki að fara að taka upp á því (á fimmtugsaldri) að horfa með eftirsjá til æskuáranna og kvíða því sem framundan er. Fertugsheitið er því: Að hugsa um heilsuna og andlegan þroska, og að sjálfsögðu að spila til sigurs.
Seinni hálfleikur - hér kem ég!
Athugasemdir
Til hamingju með afmælið fornmágur og velkominn í seinni hálfleik. Það er bara bjart framundan
Garðar Harðar (IP-tala skráð) 1.10.2007 kl. 11:30
Bestu þakkir mágur kær!
Sólmundur Friðriksson, 1.10.2007 kl. 13:43
Elsku Sommi! Til hamingju með afmælið stóra! Mikið ertu krúttlegur þarna í íþróttagallanum með gullnu lokkana þína. Var nokkuð farið í sleifaleikinn góða á afmælisdaginn líkt og forðum daga? Nahhh - það er náttúrulega varla hægt að endurtaka þá snilld nema fá mömmu til að stjórna, híhí! Kannski ég hafi það í huga fyrir minn stóra dag sem nálgast eins og óð fluga ;-) Verð að viðurkenna að mér finnst 40 þokkalega há tala og skil varla hvernig hún getur staðist miðað við hvað ég er enn barnaleg í hugsun! Ojæja, ég hef næstu tvo mánuði til að finna út úr því hvernig ég tækla þessa staðreynd. Í seinni tíð hef ég svo sannarlega lært að meta það að eiga afmæli í desember...
Maður er víst ekki deginum eldri en maður upplifir sig vera!
Kossar og knús - Túddilídú!
Hallan (IP-tala skráð) 1.10.2007 kl. 23:57
Alveg er ég þér hjartanlega sammála. Mikill léttir var þegar ég sættist við það að ég yrði allt lífið að læra og valdi að halda áfram að vaxa og þroskast og axla ábyrð á sjálfri mér. Maður er eins gamall og maður ákveður sjálfur og þar sem ég er nú að teygja á mínum brátt fyrrverandi stirða skrokk í jóganu og taka heimspekina inn í hjartað þá er hér fín setning: Maður verður ekki stirður við að verða gamall, maður verður gamall við að vera stirður. Ég var að verða skratti gömul en er öll að yngjast upp
Áfram Arsenal !
Solveig Friðriksdóttir, 2.10.2007 kl. 16:12
Til að forðast að vera gerður að athlægi þá ætla ég að koma mér hjá því að nota miklar fótboltalíkingar í máli mínu enda myndi þar hver maður sjá að þar er talað af vanefnum. Aftur á móti veit ég ýmislegt um það að verða fertugur, og þykir mér raunar stór fengur að eldast enda er það sýnu skárra en hitt. Mér stóð nú aldrei neinn stuggur af því að verða fertugur en vissulega brosti ég breitt hérna um miðnæturbil 27 júní fyrir þetta tveimur og hálfu ári síðan. Við Elsa vorum eitthvað að spjalla um daginn og veginn og þá suðaði farsíminn minn, þessi tryggi förunautur sem leyst hefur bæði hest og hund úr álögum þeim að vera besti vinur mannsins. Ég tek upp símann og náttúrulega les þau skilaboð sem þar var að sjá. Það fyrsta sem bar fyrir augu var nafn sendanda, einhver endurskoðandi sem hefur hreiðrað heldur notalega um sig mitt á milli Sjávarhylsins i Korpu og holu 9 á golfvellinum þarna innfrá. Og Palli, þessi góði drengur, býður mig velkominn yfir sólar meginn! Ég fékk margar góðar gjafir þennan dag en þessi kemur til með að lifa af bæði Æpodda og bækur. Svo ég segi nú bara Sóli minn, farðu í skýluna, smurðu þig með faktor og taktu þér einn ískaldann úr kassanum þarna. Komdu svo og sestu hjá okkur Palla hérna sólarmegin! Til hamingju með daginn!
U (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 19:17
Innilega til hamingju kall minn með afmælið. Ég er sæl og glöð komin aðeins inn í seinni hálfleik og skora grimmt skal ég segja þér. Mér finnst allur aldur sjarmerandi og verð að segja að ef mér stæði til boða að verða aftur tvítug myndi ég ei vilja. Flott mynd af þér, man ekkert sérlega eftir þér sem knattspyrnumanni, frekar sem skemmtilegum söng og gítarsnilla. Hafðu það gott !!!!
Fjóla Þorsteins (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 17:29
Bestu þakki allesammen!
Munið að næst þegar við hittumst þá gleðjumst við yfir að vera orðin eldri en við vorum síðast. Það er víst forsendan fyrir því að hittast aftur og fara í t.d. sleifaleik, lyfta tebolla eða rifja upp gamla takta í fótboltanum, Ég skil samt ekkert í Fjólu að muna ekki eftir mínum fræknu sigrum í knattspyrnunni.... hmm??? ..... Veit hún ekki að það er til ljósmynd í safni Súlunnar þar sem ég er í 11 manna hópi 4 flokks að fara að keppa við Seyðfirðinga? Skulum nú samt ekki vera að skekkja söguskoðunina með fánýtum staðreyndum eins og þeirri að það rétt náðist að skrapa saman 11 strákum í lið fyrir leikinn og þetta er LEIKURINN þar sem ég fékk að vera inná allan tímann. Skulum ekkert rifja upp úrslitin, en ég man að það var gott veður. En ég hef nú samt þann vafasama heiður að vera EINI fulltrúi Sunnuhvolsfjölskyldunnar í myndasafni Súlunnar... að því er ég best veit ... hehe.
Sólmundur Friðriksson, 8.10.2007 kl. 12:24
Er svona texti ekki kallaður "pollíönuleikur". Skiljanlegt þegar maður þarf að sætta sig við eitthvað sem maður getur ekki breytt. Þetta er allt í lagi - mundu bara að maður verður ekki gamall meðan draumarnir skipta meira máli en minningarnar.
Til hamingju með fulla fjórða tuginn!
og Böggi, sjávarhylurinn við Korpu heitir Gorvík.
palli (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 15:45
Til hamingju með daginn, ég man þá tíð þegar við Áslaug drösuðumst með þig hingað og þangað.
Njóttu seinni hálleiks og vona ég að leikurinn fari í framlengingu.
Bestu kveðjur frá Vinaminnis-genginu
Þóra Björk (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 15:33
Takk Palli Ekki Pollíönnuleikur heldur sjálfskaldhæðni - lítur kannski furðulega út á prenti.... En í sambandi við aldurinn og draumana... hmm... Hvað fótboltann varðar þá skipta minningarnar þar meira máli hjá mér en draumurinn um að hlaupa um grundir Highbury með Alan Ball og félögum... sem er ekki að furða þar sem getan á því sviði var svipuð og hjá andvana unga í hreiðri ...hehe.
Já, Þóra mig rámar nokkuð í þennan þvæling með ykkur og ekki laust við að ég finni fyrir hálsríg eftir allar þessar ,,draslanir"
Sólmundur Friðriksson, 10.10.2007 kl. 21:56
Til Hamingju með daginn um daginn Sóli, það er bara gaman að spila seinni hálfleikinn, annars hefði ég beðið í 10 ár að fara að tala um seinni hálfleik .
Til lukku Svava
Svava (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 17:13
Takk fyrir innlit og góða kveðju Svava . Þetta með seinni hálfleikinn er nú aðallega byggt á tölfræði karlleggsins í minni fjölskyldu og því tel ég 80 ár vera nokkuð bjartsýna áætlun en stend við hana. Svo má ekki gleyma að þýðingarmiklir leikir eru oft framlengdir.
Sólmundur Friðriksson, 14.11.2007 kl. 12:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.