Færsluflokkur: Rausað

Tímar breytinga

Sælir góðir gestir (ef einhverjir nenna ennþá að fara inn á þetta stopula blogg).

Engjadalur
Síðasti mánuður hefur verið nokkuð erilsamur í einkalífi sem og starfi. Við Hafdís fluttum í nýja íbúð að Engjadal 4  í Reykjanesbæ (n.t.t. í Innri-Njarðvík) fyrir ca. mánuði, brunumðum svo austur í fjörðinn fagra kenndan við Stöð um þarsíðustu helgi og fengum Agnesi mína í heimsókn um þá síðustu en hún dvaldi hjá okkur frá miðvikudegi fram á laugardagskvöld.
Við hjónin höfum bæði verið á milli vita með atvinnu en þau mál eru nú að skýrast, ég byrjaður á nýjum stað hjá tölvufyrirtæki sem heitir DaCoda en Hafdís fer á samning um mánaðarmót hjá snyrtistofunni Dekrinu í Keflavík. Svo hefur verið nóg að gera hjá mínum í að skemmta þeim félögum skrattanum og guði, þ.e. að spila fyrir fyrir drukkið og dansandi fólk annars vegar og syngja í kirkjukórnum hins vegar. Að auki er maðurinn alltaf að fikra sig á nýjar lendur í gítarkennslu og er markið sett hátt á þeim grundvelli í náinni framtíð.
Ég ætlaði nú aldrei að vera með svona dagbókarblogg en þegar maður er ekki að sinna þessu nema rétt einu sinni í mánuði er kjörið að sýna gestum (ef einhverjir eru) að maður er ekki alveg liðinn undir lok (og ástæða fyrir færsluleysi í bloggheimum).
Hef þetta ekki lengra í bili. Blessi ykkur allt sem gott er!
Sóli

 


Blogg - til hvers?

Ég hef lítið haft mig í frammi við að færa inn í bloggið, enda svo sem ekki ætlunin að kæfa allt í orðaflóði (eins og ég get átt ansi auðvelt með). En þessi síða er nú eiginlega könnun á þessu fyrirbæri og hvort þetta er eitthvað fyrir mig. Mér finnst einhvern veginn ég hafa mjög sjaldan þörf til að skrifa hér inn og hef verið að velta fyrir mér hverju það sætir. Líklegasta skýringin er sú að ég finni mig ekki almennilega í þessu umhverfi og ætla ég að leyfa henni að vera ofaná í þetta skiptið.

Í þessu samhengi knýja nokkrar spurningar á: 

Hvað er þetta blogg eiginlega? Til hvers er maður að blogga? Hvað er það sem fær fólk til þess? Hvenær er fólk að blogga, í vinnunni eða heima? Er bloggið gott eða slæmt? Hvernig kemur það til með að þróast?

 Ég ætla ekki að leitast við að svara þessu, en kannski koma einhver svör frá þeim sem villast hérna inn og skilja eftir athugasemd. Ég held að ef ég á að halda áfram í þessu af heilindum þurfi það að vera í kringum eitthvað annað en svona raus um fréttir og málefni líðandi stundar. Ég sé einhvern veginn ekki tilganginn í því og hreinlega nenni því varla. 

Mér finnst þetta fyrirbæri vera á stundum hálf tilgangslítið, nenni t.d. ekki að lesa um hvernig einhver burstaði tennurnar og hvað hann fékk sér í morgunmat o.s.frv. Margir sem fara hamförum í blogginu (og á ég þá ekki við þá sem eru með hversdaginn sem punkt í mynda- og tenglasíðum) eru að mínum dómi að svala athyglisþörf sinni og er það vel - en ég held að ég hafi ekki nógu mikið af henni til að fara inn á slíkar brautir (eins og ætlunin var með ,,rausinu"). Svo er lík svo margt í boði að það er ekki gerlegt að reyna að kemba yfir og lesa allt sem maður hefði áhúga á - þá færi nú tíminn fyrir lítið.

Hins vegar finnst gefandi að lesa pælingar sumra sem hafa eitthvað fram að færa og nefni ég þar blómarósina hana Lóu, sem er í tenglalistanum hér fyrir neðan, sem sýnir okkur svo um munar inn í reynsluheim ungrar og efnilegrar manneskju sem rær lífróður í baráttunni við krabbamein. Ég skora á ykkur að gefa ykkur tíma og kíkja á síðuna hennar, telja svo upp í huganum nokkur stærstu meinin í ykkar lífi - og bera saman við hennar.

Svo er gaman að kíkja í heimsókn á síður ættingja og vina og sjá hvað þeir eru að brasa, t.d. myndasíðuna hjá Sigurjóni bróður og svo var ansi skemmtileg lesning fyrir gamla Stöddara á síðunni hennar Þóru Bjarkar um togarann sem siglt var í strand inni á Öldu.  

Þá er ég kominn að því sem mér finnst sniðugast við bloggið, en það er að það TENGIR FÓLK. Ég er t.d. að átta mig á því að á nokkrum vikum hef ég átt samskipti við fullt af fólki sem ég hef ekki frétt af í mörg ár, allt vegna þess að ég er með þessa síðu. Mér finnst svo margir möguleikar opnast með einni svona vefgátt, t.d. að fermingar- og útskriftarárgangar eigi samskipti á slíkri síðu, heilu ættarmótin geta farið fram á þessum vettvangi og þar fram eftir götunum. Sem dæmi um möguleika þá datt mér í hug um daginn að búa til afmæliskort handa minni eiginkonu minni heittelskaðri, sem átti því láni að fagna að ná 40 ára markinu þann 27. apríl sl. Þá var hún stödd í París með móður sinni og systur en ég grasekkillinn, fór inn á póstinn hennar og sendi öllum í tenglalstanum hennar slóðina og lykilorðið á ,,afmæliskortið" sem er bloggsíða eins og þessi - http://hafdisl.blog.is Kíkið endilega á og sjáið afraksturinn. Þetta fékk hún að skoða þegar hún kom heim frá París. Og sem dæmi um hvað þetta virkar að þá var gömul skólasystir hennar flugfreyja í vélinni á heimleiðinni og hún vissi allt um afmælið og ferðina - og Hafdís skildi ekki neitt í neinu.

Þessir möguleikar eru að mínu mati óþrjótandi og flögra í allar áttir með hugmyndafluginu. Þess vegna er erfitt að snúa til baka þegar maður er búinn að hleypa svona bloggtilraun af stokkunum. Því lýsi ég bloggtilrauninni minni formlega lokið en hugsa að ég breyti úr rausi í eitthvað annað - þegar ég nenni að gefa mér tíma í það (matartíminn í vinnunni búinn og best að fara að nýta tímann í eitthvað af viti).

Góðar stundir kæru samferðamenn og ,,skjáumst" í bloggheimum.


Rausað án ábyrgðar - eða hvað?

Eitthvað er lítið að gerast hjá mínum manni í bloggheimum og því er þetta raus mitt því ennþá skilgreint af minni hálfu sem bloggtilraun. Ég er ekki alveg viss um áhuga minn og löngun til að vera að útvarpa rausi mínu á Netinu, en ætla þó ekki að dæma mig úr leik strax á þessum vettvangi - gefa þessu smá séns.

Ég hef verið að velta þessu fyrirbæri ,,bloggi" fyrir mér upp á síðkastið og er ennþá að mynda mér skoðun á því. Þetta er að sjálfsögðu kjörinn vettvangur fyrir þá sem hafa eitthvað að segja og vilja koma því frá sér, skapa umræður um sín hjartans mál - láta rödd sína heyrast (þó í óeiginlegri merkingu sé). Svo er það vafraranna sjálfra að meta hvað er gott og hvað ekki. En þar sem þetta er tiltölulega ungur vettvangur þá er spurning hvaða reglur gilda um það sem sagt er, hvort þær eru yfirleitt til og hvort ekki sé ástæða  til að setja slíkar - líkt og siðareglur blaðamanna. Kannski þessi menningarkimi setji sér sjálfur óskráðar reglur í þessum efnum þegar fram líða stundir - hver veit.

Það má segja að hvert og eitt blogg sé í raun einkafréttastofa þess sem þar skrifar. Og því vekur þetta spurningu um ábyrgð ,,fréttastjórans" á því sem hann lætur frá sér fara. Mér finnst t.d. athugasemdir við greinar oft vera á dökkgráu svæði, þegar orð eins og ,,asni" og ,,hálfviti" eru viðhöfð um menn sem fjallað er um. Fyrst að tekið er mark á gróusögum bloggara t.d. um meinta leynifundi fundi stjórnmálaforingja er greinilegt að þessi vettvangur er farinn að vega nokkuð þungt í þjóðfélagsumræðunni. Þess vegna held ég að þeir sem hamra í sífellu inn á bloggið sitt verði að sjá sóma sinn í því að gæta tillitsemi við náungann (og sjálfan sig í leiðinni) og vanda til verka við þessa útgáfu sína á veraldarvefnum.

En eins og sagði hér í upphafi þá er ég sjálfur að gera upp við mig hvort þessi vettvangur á við mig. Gæti eins verið að ég vilji frekar skrifa í skúffuna heima en ef ég vil senda frá mér lesendagrein um ákveðið málefni getur verið gott að hafa aðganga að þessum einkamiðli, en þá getur náttúrulega liðið langt þar á milli og ekki víst að neinn lesandi hafi áhuga á svo stopulri útgáfu. En það er betra að mínu viti en að vera að senda frá sér stöðugt orðaflóð með rýru og tilgangslausu innihaldi.

Svo... þangað til næst! Skjáumst!

Sóli 


Ein bloggtilraunin enn

Sælt veri fólkið!

 Fyrir allnokkrum misserum prófaði ég að byrja að blogga eins og allir voru að gera í kringum mig. Þessi tilraun var fljót að fjara út í sandinn, svipað og þegar ég reyndi sem ungur drengur að halda dagbók. En það er nú svo skrýtið að þrátt fyrir allt þá hef ég afskaplega gaman af að skrifa og get alveg misst mig þegar fingurgómarnir eru farnir að hitna á lyklaborðinu. Svo er bara spurningin hvort maður er að segja eitthvað af viti. Kannski var ástæðan fyrir stuttum líftíma í bloggheimum gamla sjálfsgagnrýnin, sú grámyglulega kerling sem fannst aldrei neitt nógu gott sem maður var að gera, en hefur á seinni árum orðið æ hásari eftir því sem minna hefur verið hlustað á hana. Og viti menn, þá hafa líka farið að fæðast ljóð, heilu lögin og textarnir, sem bíða áræðis og aðstæðna til útgáfu. En nóg um það í bili.

 Á þessu nýja bloggheimili mínu er ætlunin að spjalla um það sem hugurinn girnist hverju sinni og ég er að velta vöngum yfir, án nokkurra kvaða um magn eða efni, heldur leyfa hugmyndum sem fram koma að flögra af stað og lenda mjúklega á hinum ímyndaða pappír bloggbókfellsins, - mér sjálfum til ánægju og vonandi fleirum sem vilja kíkja í heimsókn.

Skjáumst!

Sóli 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband